141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:13]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Sem nefndarmaður í atvinnuveganefnd tek ég ógjarnan þátt í því að vísa málum eitthvert annað en til þeirrar hv. nefndar, en varðandi þetta frumvarp langar mig að útskýra af hverju ég hafna því að það fari til atvinnuveganefndar.

Í 1. gr. frumvarpsins er ákvæði um afnám friðlýsingarákvæða laga um vernd og orkunýtingu. 2. gr. frumvarpsins rústar þeim svæðum sem eru í biðflokki. 4. gr. frumvarpsins tekur fyrir allt samráð um rammaáætlun. B-liður 5. gr. frumvarpsins fellir brott ákvæði um umhverfismat og 6. gr. tefur málið og gerir það óskiljanlegt, hún gerir það að verkum að rammaáætlun klárast ekki á þessu ári eða því næsta. Það eru allt saman atriði sem snúa að umhverfinu en ekki atvinnumálum. Þess vegna á þetta mál að fara til umhverfis- og samgöngunefndar. Þetta endurspeglar hins vegar, sem mér þykir mjög miður, viðhorf þingflokks Sjálfstæðisflokksins til náttúruverndar á Íslandi og það viðhorf er vægast sagt óhugnanlegt.