141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:16]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er athyglisvert að lagt skuli vera til að mál sem heyrir efnislega undir sömu nefnd og rammaáætlun fari annað, hvort sem við erum sammála um að það skuli vera umhverfis- og samgöngunefnd eða atvinnuveganefnd. Sömu sjónarmið hljóta að gilda um þetta mál og rammaáætlun.

Alþingi Íslendinga er búið að taka ákvörðun um að vísa rammaáætlun til umhverfis- og samgöngunefndar. Hvers vegna í ósköpunum ættum við þá að vísa þessu máli sem á saman með rammaáætlun til annarrar fastanefndar? Það stríðir gegn heilbrigðri skynsemi að fara út í slíkt. (Gripið fram í.) Það er mjög athyglisvert að sjálfstæðismenn skuli ævinlega vilja ræða málefni náttúrunnar og umhverfisins á forsendum atvinnulífsins. (Gripið fram í: ... þetta er rangt.) En það er fullkomlega óeðlilegt úr því að rammaáætlun er komin í umhverfisnefnd að þetta mál eigi (Forseti hringir.) að fara í einhverja aðra nefnd. Það sjá allir sem hafa opin augu.