141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:20]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég ætlaði ekki að segja neitt við þessa atkvæðagreiðslu vegna þess að mér finnst, eins og kom fram hér áðan, þetta vera tímasóun á dýrmætum tíma okkar sem höfum ærin verkefni fyrir höndum.

Það er ekki verið að lýsa vantrausti á einn né neinn og ég vísa því alfarið til föðurhúsanna. Hér er farið eftir eðlilegum farvegi. Það er búið að vísa rammaáætlun til umhverfis- og samgöngunefndar. Alþingi hefur þegar tekið þá ákvörðun. Þá blasir að sjálfsögðu við að það er eðlilegt, skynsamlegt og í réttu samhengi að vísa þessu máli, sem hefur með rammaáætlun að gera, beint inn til þeirrar nefndar þar sem rammaáætlun er nú þegar til umræðu og umfjöllunar.

Að öðru leyti hvet ég ykkur öll til að þiggja frið jafnvel þótt ófriður sé í boði. Það er svo mikill óþarfi að standa fyrir þessari uppákomu um það til hvorrar nefndarinnar eigi að vísa málinu því að þegar í þingsal er komið geta allir þingmenn greitt atkvæði og tjáð sig eins og þeir vilja í þessu máli.