141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:23]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég stend upp vegna þess að mér ofbauð ræða hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um atkvæðagreiðsluna vegna þess að þingið er sjálfstæð stofnun og framkvæmdarvaldið sér um sig. Þó að ráðherra ákveði að vísa máli til einhverrar nefndar er ekki þar með sagt að þingið eigi að taka við því sísvona (Gripið fram í: Heyr, heyr!) og ef svo er þá er fulltrúi sem talaði fyrir því máli. Hv. þm. Bjarni Benediktsson talaði fyrir þessu máli, sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggur fram, og óskar eftir því að málið gangi til atvinnuveganefndar. Það er ósk þeirra sem flytja málið að málið fari þangað. Ætlar þingheimur að virða þá ósk þeirra sem bera málið fram eða senda það eitthvert annað í ljósi þess að framkvæmdarvaldið ákvað að hitt málið ætti að fara til umhverfis- og samgöngunefndar? [Frammíköll í þingsal.] Þingið ákveður það. (Forseti hringir.) Þingið hlýtur þá samhliða að taka ákvörðun um þetta mál. Ósk flutningsmanns er að það fari í atvinnuveganefnd og ætli (Forseti hringir.) þingið sér að hunsa þá beiðni kemur það bara í ljós en það á ekkert skylt við framkvæmdarvaldið.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir þingmenn á að virða tímamörk.)