141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:33]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Vissulega er okkur nokkur vandi á höndum. Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, úr þingsköpum um verksvið þessara nefnda þar sem segir að atvinnuveganefnd fjalli um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, iðnaðar- og orkumál, nýsköpun og tækniþróun, atvinnumál almennt og einnig nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar.

Umhverfis- og samgöngunefnd fjallar um umhverfismál, skipulags- og byggingarmál og rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt.

Málið er að þetta er nýting og þetta er vernd. Það er nýting sem byggir á rannsóknum og ráðgjöf. Og það er ekki hægt og ekki æskilegt eða skynsamlegt, virðulegi forseti, að reyna með þessum hætti að slíta svo í sundur þau sjónarmið að öðrum megin séu nýtingarsjónarmið og þau séu ósamrýmanleg verndunarsjónarmiðum. En þannig finnst mér hér að nokkru talað, virðulegi forseti, og get ekki að því gert.

Þess vegna tel ég (Forseti hringir.) að skynsamlegra sé að senda málið í þann farveg sem flutningsmaður málsins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, hefur lagt til.