141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í formála rammaáætlunar stendur:

„Í september 2007 skipaði iðnaðarráðherra 11 manna verkefnisstjórn til að ljúka 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. […] „Ríkisstjórnin hefur einsett sér að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða og leggur því áherslu á að ljúka sem fyrst rannsóknum á verndargildi þeirra og gildi til annarrar nýtingar, með sérstaka áherslu á mat á verndargildi háhitasvæða landsins og flokkun þeirra með tilliti til verndar og orkunýtingar.“ Einnig kemur fram að markmið rammaáætlunar sé „að skapa faglegar forsendur fyrir ákvörðun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafls- og jarðhitasvæði.““

Þetta getur auðvitað ekki verið skýrara. Það er algjör útúrsnúningur að halda því fram að þetta mál eigi ekki heima hjá atvinnuveganefnd enda vitum við af hvaða pólitískum toga sú niðurstaða kemur fram í þinginu. Það eru bara þær skoðanir sem hér eru uppi um áherslur á þessi mál.

Lagt var af stað í vegferð hérna til að ná einhverri sátt. Við sjálfstæðismenn leggjum til að við förum aftur til faghópanna, aftur í hið faglega starf. Við erum tilbúin að leggja okkar skoðanir (Forseti hringir.) — jafnvel við sem viljum ganga langt í virkjunum erum tilbúin að hlíta þeirri niðurstöðu sem þar kemur (Forseti hringir.) (MÁ: … málamiðlun?) í þeirri faglegu umfjöllun frá öllum þeim sérfræðingum í umhverfismálum (Forseti hringir.) og nýtingarmálum sem voru skipaðir til þeirra verka. En það er þessi meiri hluti ekki til í, hann skal með ofbeldi fara með þetta mál í gegn og eyðileggja (Forseti hringir.) þá miklu vinnu sem hefur verið lögð í það.