141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:41]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um það í hvaða nefnd þetta ágæta þingmál á að fara. Ég vil koma hingað upp og minna á það að við greiddum atkvæði fyrir tæpum tveimur vikum um það í hvaða nefnd rammaáætlun skyldi fara og ég held að það sé afar mikilvægt að eitthvert samræmi sé í vinnubrögðum þingsins.

Tvö mál sem fjalla að stofni til um sama hlutinn eiga að sjálfsögðu að vera til meðferðar í sömu nefnd og mér finnst eiginlega ótrúlegt að menn þurfi að koma hér upp og fara með þann málflutning.

Hingað hafa menn komið upp og haldið fallegar ræður um málamiðlanir innan Sjálfstæðisflokksins, væntanlega milli virkjunarsinna og stóriðjusinna [Hlátur í þingsal.] og það er gott ef menn eru að reyna að ná saman og byggja brýr. En þetta mál snýst aðeins um aðra hluti. Það snýst um að við séum með jafnvægi á milli verndunarsjónarmiða og virkjunarsjónarmiða. Ég held að við eigum að hafa augun föst á þeirri sáttargjörð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)