141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í kjölfar markaðsátaks sem ferðaþjónustan og ríkisvaldið efndu til í fyrra bauð ráðherra ferðamála ferðamönnum sem hingað kæmu með sér í heitt fótabað. Nú er ferðaþjónustan hins vegar komin með kalda fætur eftir nýjustu uppákomuna og hótanir frá hæstv. ríkisstjórn varðandi hækkun á virðisaukaskatti og þær breytingar sem boðaðar eru varðandi bílaleigubílana. Hæstv. ráðherra vitnaði til skýrslu Hagfræðistofnunar um að það gæti verið heppilegur tími núna til að hækka aftur virðisaukaskatt á gistiþjónustu. Ég bið hæstv. ráðherra að lesa lengra og geri það líka sjálfur hér, með leyfi virðulegs forseta:

„Þó ber að hafa í huga“, segir Hagfræðistofnun, „að slík breyting gæti orðið til þess að fæla hluta af þessari starfsemi út af markaði og þar með minnka virðisaukaskattsstofninn.“

Ég held að við ættum að hafa heildarsamhengið í huga þegar við ræðum þessi mál.

Það sem ég tel að sé alvarlegt í þessum efnum er að með þeim áformum sem ríkisstjórnin hefur boðað er verið að vinna gegn helstu markmiðum sem menn hafa unnið að varðandi uppbyggingu ferðaþjónustunnar, í fyrsta lagi því markmiði að reyna að fjölga ferðamönnum sem mest. Það er örugglega rétt að ferðamönnum mun ekki endilega fækka en hækkunin mun draga úr fjölguninni. Í öðru lagi er alveg ljóst mál að hún mun hafa mjög vond áhrif á þau áform sem menn hafa haft, og hafa náð ágætisárangri með að sumu leyti, um lengingu ferðamannatímans. Hækkun virðisaukaskatts mun hafa mjög hamlandi áhrif á það. Í þriðja lagi, sem er líka mjög alvarlegt, höfum við verið að reyna að dreifa ferðamönnunum betur út um landið. Það er nauðsynlegt vegna fjölgunar þeirra og það er líka nauðsynlegt til að skapa möguleika ferðaþjónustunnar úti um landsbyggðina, það er enginn vafi á því að hækkunin mun draga úr því.

Ég hitti á dögunum hótelstjóra á litlu hóteli fyrir vestan sem sagðist hafa sent birgjum sínum tölvupóst til að segja frá því að nú stæði til að fara að hækka þennan virðisaukaskatt og að hótelstjórinn hefði þess vegna fyrirvara um verð á hótelherbergjunum. Svarið var ósköp einfalt: „Frú hótelstjóri. Þú verður að taka á þig þessa hækkun sjálf.“

Það er kjarni málsins. (Forseti hringir.) Ferðaþjónustan hefur ekki burði til að taka hækkunina á sig. Framlegðin er svo lítil að þetta mun gera út af við ferðaþjónustuna nema ferðaþjónustan geti velt hækkuninni út í verðlagið. (Forseti hringir.) Það mun síðan stuðla að því að hingað koma færri ferðamenn en ella.