141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:58]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Meginspurningin í ferðaþjónustu á Íslandi nú um stundir er hvað landið getur tekið við mörgum ferðamönnum. Við þurfum að staldra þar við. Aukningin hefur verið gríðarleg á undanförnum árum og um það bil 90% af þeim ferðamönnum sem leggja ferð sína hingað til lands vilja sækja náttúruna heim og hún er óhemjuviðkvæm. Þess vegna getur fjölgun ferðamanna ekki verið stjórnlaus á komandi ári, við verðum að staldra við. Það er ekki takmark í sjálfu sér að skófla hingað erlendum ferðamönnum.

Við eigum að efla hér ferðamannasvæði, við eigum að dreifa ferðamönnum betur yfir árið og betur yfir landið og stjórna ferðaþjónustunni betur. Stjórnlaus ferðamennska og stjórnlaus ferðaþjónusta mun á endanum fara það illa með landið að æ færri erlendir ferðamenn munu koma til landsins í ljósi þess að langflestir þeirra koma hingað til að skoða óspillta náttúru.

Á ferðaþjónustan að sitja við sama borð og aðrar almennar atvinnugreinar? Ég tel svo vera. Við eigum hins vegar að fara með gát þegar kemur að hækkun gjalda á þá þjónustu og má vel vera að hér sé farið of bratt af stað þegar hækkunin á að taka gildi á fyrri hluta næsta árs, í maíbyrjun. Það þurfum við að ræða við fólk í greininni. Ég tel hins vegar að hækkunin muni á engan hátt ríða ferðaþjónustunni að fullu, enda kom í ljós í máli hæstv. ráðherra að lækkunin á sínum tíma úr 14% niður í 7% hafði svo að segja engin áhrif. Ég tel því ekki að það muni ríða atvinnugreininni að fullu að sitja við sama borð og aðrar atvinnugreinar, langt því frá. Við skulum fara með gát í hækkun á virðisaukaskatti en umfram allt verðum við að spyrja okkur: Hvernig tökum við á móti auknum fjölda ferðamanna hingað til lands? Viljum við að við skóflum inn fjölda ferðafólks hingað til lands á næstu árum?