141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

staða ferðaþjónustunnar.

[15:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er hálfundarlegt að koma upp á eftir síðasta ræðumanni sem talar um að ferðaþjónustan afskræmi þá þjóð sem býður ferðamönnum heim. Ég veit ekki hvers konar ferðamennsku hv. þingmaður stundar eiginlega eða hvert hann fer. Ég kannast nú ekki við það, nýkominn frá Kanada, að þar séu einhverjir afskræmdir einstaklingar á ferð í tengslum við ferðaþjónustuna.

Ég vil hins vegar benda á eitt í ljósi orða hv. þingmanns um okurverð á gistingu og okrið úti á landi og það sem verið er að rukka fyrir mat og gistingu. Heildarafkoma eða framlegðin á 30 stærstu hótelum landsins er 600 milljónir hjá þeim öllum samanlagt. Það hefur enginn það sérstaklega gott í þessari atvinnugrein, því miður. Það er langt í að svo verði. Þess vegna þarf atvinnugreinin að fá svigrúm og tækifæri til að gera enn betur en hún er að gera. 600 milljónir á 30 stærstu hótelunum. Hvernig getum við rökstutt það að greinin geti tekið meira á sig en nú er?

Mikil uppbygging hefur verið á gistingu og ferðamennsku, bæði úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu. Við megum ekki stoppa þar. Við getum hins vegar reynt að setja einhverjar takmarkanir ef menn hafa áhyggjur af fjölda ferðamanna. Ég held til dæmis að við eigum að selja inn á náttúruperlur okkar. Við eigum að rukka inn á Gullfoss og Geysi og allt þetta, (ÞSa: … afskræmingin.) gera eitthvað slíkt (Gripið fram í.) og nota þá peninga til uppbyggingar. Það þurfum við að gera, frekar en að fæla ferðamenn frá því að koma til landsins. Fáum þá til landsins og reynum svo að rukka þá þegar þeir eru komnir.

Annað sem ég vil koma að. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru alveg furðuleg, að skjóta fyrst og spyrja svo. Fyrst er tilkynnt að hækka eigi skattinn. Allt fer í hnút. Áætlanir og starfsemi hjá aðilum ferðaþjónustunnar eru upp í loft. Og þá á að setjast niður og skoða hvort hægt er að laga málið. Það er fyrst gert þegar búið er að skjóta.

Hver einasti dagur sem líður skiptir máli því aðilar í ferðaþjónustu eru núna að gera sín plön og semja fram í tímann. Hver dagur sem ríkisstjórnin heldur atvinnugreininni í gíslingu varðandi þetta er dýr. Hann er dýr fyrir landið.