141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

staða ferðaþjónustunnar.

[15:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Umsvif ferðaþjónustunnar í atvinnulífinu fara stöðugt vaxandi og greinin er nú orðin ein af meginstoðunum í efnahagslífi landsmanna. Ef fram heldur sem horfir gæti fjöldi ferðamanna til landsins orðið 1 milljón innan fárra ára sem er ekki endilega eftirsóknarvert. Ferðaþjónustan hefur sýnt fram á að hægt er að mæta skakkaföllum eins og afleiðingum eldgoss með öflugu markaðsstarfi í samvinnu við stjórnvöld sem skilað hefur miklum árangri. Enn frekari tækifæri eru til staðar í markaðssókn. Ánægjulegt er að sjá hve margir smærri ferðaþjónustuaðilar úti um land eru að sækja í sig veðrið með fjölbreyttri matar- og menningartengdri ferðaþjónustu til viðbótar við þá flóru sem fyrir er.

Ferðaþjónustan hefur byggst upp að stærstum hluta á einstakri náttúru landsins, fjölbreyttum auðlindum og menningu samfélagsins. Því er mikilvægt að efla enn frekar markaða tekjustofna sem ætlaðir eru til að varðveita viðkvæma náttúru og bæta aðgengi og aðstöðu ferðamanna vítt og breitt um landið. Ef við tökum okkur ekki verulega á þar er voðinn vís.

Skattumhverfi ferðaþjónustunnar á að taka mið af því að samgöngukerfi innan lands sé hagkvæmur valkostur fyrir ferðamenn, hvort sem ferðast er á eigin vegum með almenningssamgöngum eða með flugi. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að ferðamenn dreifist sem mest yfir landið allt árið um kring og skapi þannig sem flest heilsársstörf.

Heilsársferðaþjónusta fer stöðugt vaxandi og aukin þörf er fyrir gistirými vítt og breitt um landið. Það er nauðsynlegt að ferðaþjónustan byggist upp á heilbrigðum og samkeppnishæfum grunni og aðlagi sig því skattumhverfi sem annað atvinnulíf býr við í landinu. Mikill áhugi erlendra ferðamanna á Íslandi sýnir að við eigum mikil tækifæri inni. Þar haldast í hendur verndun náttúrunnar og verð og gæði þjónustunnar. En við þurfum að uppræta svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustunni.