141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

staða ferðaþjónustunnar.

[15:08]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er með eindæmum hvað hæstv. ríkisstjórn tekst illa að ganga í takti við atvinnulífið í landinu. Það má eiginlega líkja þessu við einelti. Þetta sjáum við endurspeglast í því hvernig haldið hefur verið á málefnum sjávarútvegsins, orkuiðnaðar og nú ferðaþjónustu. Hér kemur enn eitt óundirbúna og vanhugsaða málið fram. Á sama tíma og menn keppast við að róma velgengni í ferðaþjónustu, segja að hana þurfi að efla og taka þátt í alls konar átaksverkefnum með aðilum í ferðaþjónustu, kemur hin höndin og ætlar að hrifsa þetta allt til baka. Hvaða samræmi er í þessu? Viðbrögð frá samtökum ferðaþjónustunnar hafa verið mjög harkaleg og þá segja ráðherrar: Bíðið við, við ætlum að setjast niður með ykkur og fara yfir þetta og leysa málið.

Við heyrðum áðan að staðan er þannig í dag að allt er í uppnámi, allt óljóst. Hvernig hefði verið að byrja á byrjuninni og skoða málið áður en lagt var af stað? Það er með ólíkindum hvernig unnið er að málum sem snerta atvinnulífið í landinu.

Auðvitað hefur þetta gríðarleg áhrif og er þegar farið að segja til sín. Við vitum að fyrirhugaðar voru miklar framkvæmdir og fjárfestingar í atvinnugreininni sem eru allar eða mjög margar í uppnámi í dag. Við höfum heyrt fjölmörg dæmi um þetta alls staðar að af landinu. Menn eru að hætta við út af þessari miklu óvissu. Á sama tíma er kallað eftir aukinni fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Það er eins og menn viti ekki hvað þeir eru að gera, það er bara þannig.

Talað er um að efla þurfi heilsársferðaþjónustu og horfa til alls landsins í þeim efnum, en það er borðliggjandi að verst mun þetta koma við hina litlu staði úti á landi, litlu gististaðina úti um allt land sem menn hafa viljað (Forseti hringir.) efla. Ég bið menn að ganga hreint til verks, setja þetta á ís, gefa mönnum frið og setjast niður og skoða hvað er hægt að gera í frekari skattlagningu á þessari grein, hvort hún beri hana og hvort hún borgi sig. Ég er sannfærður um að svo er ekki. (Forseti hringir.)