141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

122. mál
[15:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér í þriðja skipti fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir hönd okkar Íslendinga fríverslunarsamning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og lýðveldisins Kólumbíu. Þessi samningur var undirritaður í Genf 25. nóvember 2008. Samhliða leita ég heimildar til að fullgilda landbúnaðarsamning milli Íslands og Kólumbíu sem var undirritaður sama dag.

Herra forseti. Ég lagði þessa tillögu hér fyrst fram á 138. löggjafarþingi. Hún hlaut ekki afgreiðslu. Aftur lagði ég hana fram á 139. löggjafarþingi, með smávægilegum breytingum, og hún hlaut heldur ekki afgreiðslu. Ástæðan er sú að í Kólumbíu hefur, eins og við vitum, lengi verið erfitt ástand. Þar hefur ríkt stríð á millum sjö skæruliðahreyfinga og ríkisstjórnarinnar. Ástand mannréttindamála í Kólumbíu hefur ekki verið nægilega gott, það vitum við öll. Hins vegar fullyrði ég, bæði af reynslu minni sem stjórnmálamaður sem fylgist með og líka af persónulegri reynslu minni, að ástandið þar er allt annað en áður. Ég undirstrika sérstaklega, áður en ég held lengra fram í að lýsa efni þessarar tillögu, að nákvæmlega núna sem við tölum hafa átt sér stað mikilvægar samningaviðræður milli ríkisstjórnarinnar í Kólumbíu og FARC, sem er aðalskæruliðahreyfingin sem þar hefur verið á dögum, um frið. Það stefnir og horfir mjög til friðaráttar þannig að ég tel mál til komið að þingið samþykki nú þessa tillögu. Hún er þegar farin að valda erfiðleikum í samskiptum okkar og Kólumbíu.

Þessi samningur við Kólumbíu er mikilvægur til að bæta aðgang fyrirtækja, ekki bara hér á Íslandi heldur líka í EFTA-ríkjunum, að markaðnum í Kólumbíu. Þessi samningur mun draga úr viðskiptahindrunum og mun bæta samkeppnisaðstöðu fyrirtækja í Kólumbíu. EFTA-ríkin hafa nú gert 24 fríverslunarsamninga við ríki eða ríkjahópa ef við teljum þennan samning við Kólumbíu með. Í tengslum við þessa samninga hafa í mörgum tilvikum verið gerðir sérstakir tvíhliða samningar á millum einstakra EFTA-ríkja og viðkomandi ríkis eða ríkjahóps um verslun með óunnar landbúnaðarvörur.

Árleg verðmæti útflutnings héðan til Kólumbíu hafa vitaskuld ekki verið mjög mikil. Kólumbía er fátækt land en það er hins vegar eitt af þeim löndum þar sem uppgangur hefur verið hvað mestur og hagvöxtur er einna mestur í Suður-Ameríku núna. Þar sluppu menn líka að verulegu leyti við efnahagsóáran í kjölfar hremminganna sem dundu yfir heiminn 2008.

Á þessum síðustu fjórum árum má segja að útflutningurinn frá okkur hafi numið nokkrum tugum milljóna, 35–60 millj. kr. Það eru fyrst og fremst sjávarútvegsafurðir sem hafa verið fluttar út frá okkur. Innflutningur frá Kólumbíu hefur verið sveiflukenndur á þessum sama tíma, hefur sveiflast frá 50 og upp í 350 millj. kr. Kólumbíumenn flytja einkum út til Íslands grænmeti, ávexti og kaffi.

Þessi fríverslunarsamningur við Kólumbíu kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur og sjávarafurðir. Eins og hv. þingmenn vita leggjum við alltaf mjög ríka áherslu, í öllum okkar fríverslunarsamningum, á afnám tolla á sjávarafurðir. Með gildistöku þessa samnings munu tollar á helstu sjávarafurðir og iðnaðarvörur frá Íslandi falla niður, annaðhvort frá gildistöku samningsins eða eftir atvikum að loknu fimm og upp í tíu ára aðlögunartímabili.

Ég greindi frá því áðan að meginhluti af útflutningi okkar til Kólumbíu hefur verið sjávarafurðir. Tollar við innflutning á sjávarafurðum til Kólumbíu eru nú á bilinu 5% til 25%. Þannig að af sjálfu leiðir að með því að fella niður þessa tolla þá skapar samningurinn forsendur fyrir aukin viðskipti með sjávarafurðir. Það skiptir mjög miklu máli fyrir okkur.

Þá er kannski tvennt sem ég vil sérstaklega leggja áherslu á. Í fyrsta lagi að þær hremmingar sem hafa gengið yfir Evrópu hafa leitt til þess að verðlag á íslenskum sjávarafurðum er að lækka. Það var til dæmis góður maður sem upplýsti mig um það í morgun á fundi ríkisstjórnarinnar að verð á stórum saltfiski er að lækka töluvert á okkar hefðbundnu evrópsku mörkuðum, eða um allt að fimmtung.

Ég nefni saltfiskinn sérstaklega vegna þess að í Kólumbíu og í öðrum ríkjum Suður-Ameríku er vísir að markaði sem gæti orðið sterkur í framtíðinni. Saltfiskur er einmitt sú tegund af vöru sem er auðveldara að koma á markað og koma út til neytenda í ríkjum sem hafa kannski ekki alveg jafnháþróað dreifikerfi og við eigum að venjast hér í Evrópu.

Í annan stað vil ég nefna það alveg sérstaklega að við höfum séð fregnir um það að þess sé að vænta að á næstunni aukist gríðarlega útflutningur frá Evrópu til Suður-Ameríku og annarra álfa, ekki síst frá norðurhluta Evrópu og þá fyrst og fremst frá keppinautum okkar Norðmönnum. Ég vek athygli hv. þingmanna á því að þegar Norðmenn og reyndar Rússar kynntu kvóta á þorskafla úr Barentshafi fyrr á þessu ári kom í ljós að bara kvótaaukningin á þorski úr Barentshafi er ígildi alls þess sem við Íslendingar megum veiða af þorski á næsta fiskveiðiári.

Það skiptir máli að fella niður tolla á sjávarafurðum sem víðast, ekki síst í ríkjum Suður-Ameríku. Ég tel að samningur af þessu tagi gæti með öflugu markaðsátaki, eins og nú er rætt um, ekki síst innan greinarinnar, verið góð viðspyrna fyrir aukna sókn á íslenskum sjávarafurðum til Suður-Ameríku.

Þessi fríverslunarsamningur er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og hann inniheldur auk ákvæða um vöruviðskipti ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup og einnig ákvæði um lausn ágreiningsmála.

Það er mikilvægt að upplýsa að í þessum samningi er gert ráð fyrir því að samningsaðilar hittist reglulega á samráðsfundum til að fara yfir framkvæmd samningsins og önnur mál sem honum tengjast. Prýðilegur vettvangur til dæmis til að taka upp álitamál sem menn telja að hafi spunnist út af mannréttindum.

Samningurinn hefur seiglu til að taka á því sem aðilar hans kynnu að telja að þyrfti að færa til umræðna millum þjóðanna tveggja.

Landbúnaðarsamningurinn millum þessara tveggja ríkja er viðbótarsamningur og eins og ég sagði áðan er hann að venju gerður með vísan til fríverslunarsamningsins. Verslun með óunnar landbúnaðarvörur fellur undir landbúnaðarsamninginn og hann kveður á um að tollar á tilteknar landbúnaðarvörur verði lækkaðir eða felldir alveg niður. Þannig mun til dæmis Kólumbía fella niður tolla á vatn og lifandi hross frá gildistöku samningsins og ég veit að það gleður marga framsóknarmenn og ekki síst fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, Guðna Ágústsson, sem jafnan mælti fyrir slíku meðan hann var með okkur á dögum hér.

Tollar á íslenskt lambakjöt munu líka falla að fullu niður að loknum tíu ára aðlögunartíma. Ísland mun síðan á móti fella niður tolla á ýmsum tegundum lifandi plantna, ákveðnum tegundum afskorinna blóma, jólatrjám, ýmsum matjurtum og ávaxtasafa. Þar er um að ræða svipaðar tollaívilnanir og eru í samningum Íslands og hins ágæta Evrópusambands.

Herra forseti. Ég gat þess í upphafi máls míns að ástæðan fyrir því að þessum samningi hefur seinkað í meðförum Alþingis er það sem menn hafa talið vera ástand mannréttindamála í Kólumbíu. Það er mála sannast að á undanförnum tveimur áratugum hafa forystumenn verkalýðshreyfingarinnar í landinu margsinnis sætt hótunum og líkamsárásum og hafa jafnvel verið teknir af lífi án þess að þeir sem hafa gerst sekir um slík óhæfuverk hafi verið látnir svara til saka fyrir dómstólum.

Þetta hefur stafað af þeirri stöðu sem hefur verið uppi í Kólumbíu. Ég gat um það áðan að styrjöld hefði verið í gangi í landinu á milli ríkisstjórnarinnar og sjö skæruliðahreyfinga. Nú er ein skæruliðahreyfing eftir sem nokkuð kveður að og í gangi eru sérstakir samningar á milli hennar og ríkisstjórnarinnar.

Þessi andstaða sem hér hefur komið fram í þinginu við fríverslunarsamning er ekki bara bundin við Ísland. Noregur hefur ekki samþykkt samninginn af sömu ástæðu. Afstaða Norðmanna hefur ekki síst orðið þess valdandi að hér á Íslandi hafa menn reist skorður við samþykkt þessa samnings.

Það er rétt að geta þess líka að árum saman samþykkti fulltrúadeild Bandaríkjanna ekki fríverslunarsamning sem Kólumbía var aðili að og Bandaríkin. En það hefur hins vegar gerst núna að stjórnvöld þar og í Kólumbíu hafa komið sér saman um ákveðna aðgerðaráætlun á sviði vinnulöggjafar og í framhaldinu var síðan fríverslunarsamningurinn staðfestur á Bandaríkjaþingi og fullgiltur af hálfu bandarískra stjórnvalda.

Noregur hefur talið að án slíks samkomulags á milli Noregs og Kólumbíu væri útilokað að fá samþykki norska Stórþingsins fyrir fríverslunarsamningi. Kólumbía hafnaði hins vegar algjörlega tilboði Norðmanna um slíkt samkomulag og að það yrði gert með tilvísun í vinnuréttarmál en opnaði fyrir að málið yrði leyst með ákveðnu minnisblaði, samkomulagi, viljayfirlýsingu milli aðila. Ekkert hefur þokast í því máli að því er ég best veit. Ég veit þó til þess að þegar ég var á allsherjarþinginu fyrir skömmu stóðu fyrir dyrum viðræður á millum Kólumbíu og Noregs um þetta mál.

Íslendingar hafa sett fram þá afstöðu að þeir vildu gjarnan vera aðilar að slíku samkomulagi. Ég tel sjálfur, núna þegar við erum að ræða þetta í þriðja skiptið, að tími sé kominn til að þingið skoði þetta bara sjálft án tillits til afstöðu Norðmanna og meti það þá sjálft með einhverjum hætti hvort það sé ekki rétt sem ég segi að þessum málum hefur verið þokað mjög til jákvæðari áttar nú á síðustu árum. Ég undirstrika það aftur að sá ágæti forseti sem nú er í Kólumbíu, þó að hann sé að vísu veikur um þessar mundir, hefur beitt sér fyrir þessum friðarviðræðum og áður hafði Uribe, fyrrverandi forseti, gert mjög mikið til að stilla til friðar í landinu.

Ég fullyrði það af tengslum mínum og þekkingu á þessu landi að það er allt annað ástand þar en bara fyrir sjö til tíu árum. Ég tel líka að miðað við það hvernig upphafsorðin í þessum fríverslunarsamningi eru að þar sé tekið á þessum málum. Ég tel að það sé algjörlega skýrt að fullgilding á fríverslunarsamningnum felur alls ekki í sér blessun Íslands eða annarra EFTA-ríkja á einhverju sem menn kunna að líta á, og ég gæti fallist á, sem mannréttindabrot í þessu landi.

Ég tel þvert á móti að nánara samstarf við Kólumbíu gegnum fríverslunarsamning gæfi bæði Íslandi og EFTA-ríkjunum tækifæri til að taka stöðu mannréttinda í Kólumbíu ef þurfa þykir upp á grundvelli hinnar sameiginlegu nefndar sem ég gat um í upphafi máls míns að er einmitt njörvuð inn í þennan samning.

Ég legg það því til, herra forseti, að í lok þessarar umræðu skoði utanríkismálanefnd það mjög rækilega hvort ekki sé rétt, miðað við breyttar aðstæður og miðað við jákvæða þróun í landinu, að samþykkja þennan samning núna að lokum.

Ég legg svo til, herra forseti að málinu verði að þessari umræðu lokinni vísað til hv. utanríkismálanefndar.