141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

122. mál
[15:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Svar við fyrstu spurningunni er já. Við höfum rætt mannréttindamál í Kólumbíu við kólumbísk stjórnvöld. Ég hef rætt þau við utanríkisráðherra Kólumbíu og við aðstoðar- eða varautanríkisráðherra Kólumbíu sem hingað kom fyrir sennilega tveimur árum. Sömuleiðis hafa starfsmenn utanríkisráðuneytisins oft og mörgum sinnum rætt þau mál í tengslum við þennan samning. Sú umræða hafði þá sprottið af því að Kólumbíumenn ganga eðlilega eftir því að samningurinn verði samþykktur og benda á að önnur ríki hafa staðfest þennan samning eða svipaðan samning. Önnur EFTA-ríki en við og Norðmenn hafa sem sagt staðfest þetta.

Ég skildi vel afstöðu Alþingis í upphafi sem vildi fara sér hægt í þessu máli vegna þess að þá voru uppi töluverðar umræður um það meðal annars á sviði Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Ég er þeirrar skoðunar að sú niðurstaða sem kom hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni, með tilvísan til ákveðinna aðgerða sem hafði verið ráðist í í Kólumbíu, sé þess eðlis að vel sé hægt á grundvelli þess eins að samþykkja þennan samning.

Nú er ég þeirrar skoðunar að þróunin síðan þá í Kólumbíu taki af vafa um það að hún sé ákaflega jákvæð, þar horfi allt í rétta átt. Þá tel ég að það sé okkar Íslendinga að taka afstöðu, þess vegna með því að leita okkur einhverra gagna til að kanna hvort það sé rétt hjá mér að staðan hafi batnað, miklu frekar en kjósa að fara bara eftir því hvað Norðmenn gera. Ég tel ekki að við eigum endilega að fara eftir því. Ég er ekki einu sinni þeirrar skoðunar eins og staðan er í Noregi núna í aðdraganda kosninga þar sem þetta mál hefur aðeins tengst samskiptum stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar, sem er þar mjög gild í ríkisstjórninni, að það sé réttur mælikvarði. Ég er þeirrar skoðunar að þingið eigi að skoða þetta og helst samþykkja. Ég tel að allar forsendur séu til þess.