141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

122. mál
[15:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka það fram til að taka af allan vafa að þessi samningur er ekki lagður fram til þess að styrkja hlut eins eða neins, alveg sama hversu vel menn eru giftir.

Mig langar að nefna að í samningnum er talað um mannréttindi. Í þeim formálsorðum sem ég vísaði til í flutningsræðu minni er til dæmis ákveðin skírskotun til þess. Í formálanum segir að samningsaðilar árétti skuldbindingu sína um að virða lýðræði, reglur réttarríkis, mannréttindi og mannfrelsi. Staðan er sú að EFTA ákvað fyrir nokkrum árum að leggja mun meiri áherslu en áður á vægi umhverfis- og vinnuverndarmála í viðræðum um fríverslunarsamninga. Þessi samningur var tilbúinn í drögum áður en sú ákvörðun var tekin, en eigi að síður voru þau orð sem ég las upp hér áðan sett inn í formálann. Það var gert með samþykki beggja aðila, báðir aðilar gera sér grein fyrir því. Það fylgir líka ákveðinn samráðsvettvangur þessum samningi. Ákvæði í samningnum eru um hann þar sem menn geta tekið upp hvers konar atriði ef þeir telja að með einhverjum hætti sé brugðið út af samningnum.

Fyrirspurn þingmannsins var hvort ég teldi að einhverjir aðrir samningar sem væru í gangi gætu stöðvast út af þessu. Ég tel ekki. Þeir samningar sem eru núna í gangi eru við þannig ríki að ég held að ekki sé hægt með nokkru móti að líta svo á að þar sé þróun sem ekki sé í átt frá mannréttindabrotum. Sum þessara ríkja hafa átt dálítið erfiða fortíð í þeim efnum en öll eru þau á batavegi þannig að ég held að svo sé ekki.

Ég ítreka að ég er þakklátur fyrir þann stuðning sem kom fram í máli hv. þingmanns og veit að forseti er mér sammála um það að rétt er að vinda bráðan bug að því að samþykkja þessa tillögu.