141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

122. mál
[15:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð hans hér og vil taka undir þau orð hans að það skipti miklu máli fyrir Íslendinga að fá sem mest af tollum niðurfellda í gegnum sem flesta samninga. Ég hygg að ég geti talað fyrir hönd framsóknarmanna almennt þegar ég segi að við viljum gera sem flesta viðskiptasamninga við eins mörg ríki og við gerum. Við hljótum hins vegar alltaf að vega og meta í hvert skipti við hvaða aðila við erum að semja og hvernig þeir hafa hagað sér. Höfum við hag af því? Viljum við gera viðskiptasamninga við öll lönd og öll ríki?

Ég var ánægður að heyra hæstv. ráðherra ræða um mannréttindamál, einnig í Kólumbíu. Það er vitanlega alltaf spurning hvenær á að blanda saman ólíkum hlutum, vil ég leyfa mér að segja, eins og viðskiptum og trú, viðskiptum og mannréttindum eða einhverjum slíkum málum sem eru ótengd í grunninn. Það er hins vegar ljóst af samningum sem gerðir eru nú á dögum, hvort sem það er á vegum Íslendinga eða annarra, að sem betur fer er reynt að tengja saman þessa hluti til að koma á betra ástandi. Ég fagna því í raun að í þessum samningum sé verið að ræða um mannréttindamál almennt þó að það sé almennt. Ég held að það sé gott.

Við eigum kannski að ganga eftir því að þau ríki sem við eigum í viðskiptum við eða samningum við virði þá það sem í þessum samningum stendur. Ég hef nokkrar áhyggjur af því að Kólumbíumenn séu að standa sig á þeim vettvangi og kom aðallega hingað upp til þess að minna á að í Kólumbíu er akkúrat íslensk fjölskylda sem er þar föst með börn sín og kemst ekki til Íslands. Mér skilst að embættismannakerfið í Kólumbíu standi helst í vegi fyrir því að þessi fjölskylda komist til landsins. Að því sögðu vil ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir baráttu hans fyrir þessa fjölskyldu og hve vel ráðherrann hefur staðið sig í að halda því á lofti og stutt fjölskylduna með því að beita áhrifum sínum, fjárhagslega og slíkt. Þetta er mjög mikilvægt og ég þakka ráðherranum fyrir það.

Ég verð hins að viðurkenna að þegar við erum með svona dæmi fyrir framan okkur á maður stundum erfitt með að skilja á milli viðskiptahugmyndar og viðskiptasamnings og raunverulegs ástands sem maður beinlínis sér og virðist vera þarna í Kólumbíu. Með því er ég ekki að segja að ég sé á móti þessum samningi, ég vil bara vekja athygli á því að mér sýnist vera pottur brotinn í Kólumbíu þegar kemur að því að virða mannréttindi. Í þessu tilviki lendir það á íslenskri fjölskyldu sem er föst þarna með börnin sín. Ég ítreka þakkir til ráðherra fyrir hans þátt í að hjálpa þessari fjölskyldu.