141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

122. mál
[15:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Alþingi ákvað að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ég get ekki fallist á það sem hv. þingmaður sagði — skilyrðislaust. Vegna þess að í meðförum þingsins var lagt fram ítarlegt álit þar sem farið var yfir meginhagsmuni Íslands og hver meginatriðin í samningsafstöðu okkar ættu að vera í einstökum málaflokkum. Það er það veganesti sem menn eru með í viðræðunum við Evrópusambandið um aðild.

Varðandi fríverslunarsamninga og Evrópusambandið er það rétt hjá hv. þingmanni að Evrópusambandið gerir fríverslunarsamninga fyrir hönd þeirra ríkja sem eru aðilar að því. Nú er það svo að Evrópusambandið er með mjög marga fríverslunarsamninga í gildi nú þegar, meðal annars við ríki sem Ísland er ekki með samninga við.

Yfir þetta hefur verið farið í hv. utanríkismálanefnd og þar hafa verið lagðir fram listar yfir gildandi fríverslunarsamninga, bæði Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna og Íslands sérstaklega þar sem skörunin er nú satt að segja ekki mjög mikil — nú hef ég það ekki alveg við höndina hvernig staða mála er gagnvart Kólumbíu sérstaklega í því efni.

En almennt séð er það rétt hjá hv. þingmanni að Evrópusambandið gerir fríverslunarsamninga fyrir hönd sinna ríkja. Ég er ekki sannfærður um að það sé endilega slæmur samanburður ef áhyggjur hv. þingmanns stafa af því að fríverslunarsamningar sem Ísland hefur gert sérstaklega eða í gegnum EFTA falli niður, þá hygg ég að þeir séu flestir ef ekki allir dekkaðir af fríverslunarsamningum sem Evrópusambandið hefur gert. En yfir þetta má fara betur á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja í því efni.