141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

122. mál
[15:54]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt ef hv. þingmaður er ekki sáttur við það svar sem ég gaf í fyrra skiptið, ég skal reyna að vera aðeins skýrari að þessu sinni.

Það mun vera svo að Evrópusambandið hefur fríverslunarsamning við Kólumbíu. En varðandi spurninguna um hvort það sé mótsagnakennt að vera að gera samninga í gegnum EFTA, eins og í þessu tilfelli, og það eru þá samningar sem eru gerðir á forsendum EFTA, bandalags samtaka sem við eigum aðild að, en ekki bara Íslands sérstaklega — (PHB: Hann fellur niður.) ég tel það alls ekki vera mótsagnakennt vegna þess að ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að þjóðin eigi sjálf að taka ákvörðun um hver framtíð hennar verður varðandi tengslin við Evrópusambandið.

Ég hef líka sagt það margoft í ræðum að ég telji að það sé verkefni stjórnvalda að leggja fyrir þjóðina góða kosti. Þess vegna tel ég að menn eigi að leggja sig fram um að ná góðum samningi við Evrópusambandið þannig að sá kostur, ef þjóðin velur hann, verði til heilla fyrir þjóðina. En ef þjóðin velur annan kost, þ.e. að fara ekki í Evrópusambandið, sé það líka góður kostur fyrir þjóðina til framtíðar og fríverslunarsamningar geta verið liður í því að búa undir slíkan góðan kost.

Ég sé ekkert að því að við höldum áfram að þróa samskipti okkar við önnur ríki á forsendum okkar eða á forsendum þeirra samtaka sem við erum í, eins og núna, EFTA. Ef þjóðin tekur síðan ákvörðun um að fara aðra leið einhvern tímann í framtíðinni þegar samningsniðurstaða liggur fyrir gagnvart Evrópusambandinu tekur sá veruleiki við þegar þar að kemur. Ég sé enga mótsögn í því. Eigum við þá bara að hætta öllum samskiptum við önnur ríki vegna þess að einhver önnur framtíð kann að bíða handan við hornið síðar meir? Það fyndist mér vera óábyrgt, hæstv. forseti.