141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

122. mál
[15:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem aðeins til að þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, formanni utanríkismálanefndar, fyrir jákvæðar undirtektir hans við þennan samning að þessu sinni. Ég tel mikilvægt að hv. formaður utanríkismálanefndar telji að bættar forsendur séu fyrir því að samþykkja samninginn.

Ég vil geta þess í framhaldi af því sem ég sagði að jákvæð þróun væri í gangi í Kólumbíu í þessum efnum að Norðmenn ásamt Kúbverjum hafa haft frumkvæði og forgöngu að samningaviðræðum, friðarviðræðum, á milli FARC-skæruliðasamtakanna og stjórnvalda í Kólumbíu. Þær hafa farið fram að mestu leyti í Havana á Kúbu en núna í haust var þeim fram haldið í Ósló, raunar í þessum mánuði. Ég hygg miðað við þær fregnir sem maður hefur fengið af Kólumbíu þá sé margt sem bendi til þess að þar sé að teikna sig upp betri staða hvað varðar mannréttindi.

Ég held að ef hv. nefnd leggur á sig að skoða þessi mál svolítið muni niðurstaðan verða sú að jákvæð þróun sé í gangi og ég held að allt hnígi þess vegna að því að menn geti verið rólegri gagnvart því að samþykkja þennan samning. Ég ítreka það sem ég sagði að samningurinn er með slíku orðalagi og þannig stofnanaákvæðum að hann gefur tilefni til þess að geta tekið upp eftirfylgni með þeirri þróun á vettvangi samningsins sjálfs. Það finnst mér vera svolítið mikilvægt.