141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[16:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bregðast við nokkrum atriðum í máli hv. þingmanns. Í fyrsta lagi vil ég nú beina sjónum að frumvarpinu sjálfu.

Í 1. gr. er sagt að markmið laga þessara sé að tryggja tilvist miðstöðvar innanlandsflugs í næsta nágrenni við helstu heilbrigðis-, mennta- og stjórnsýslustofnanir landsins. Í mínum huga þýðir það að vera í næsta nágrenni við þær t.d. á höfuðborgarsvæðinu ekki endilega að flugvöllur þurfi að vera í Vatnsmýrinni. Þetta finnst mér stangast á við 3. greinina. Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort markmiðið sé sem sagt með þessu frumvarpi að flugvöllurinn verði í Vatnsmýri í óbreyttri mynd. Hvort það beri að lesa það út úr þessu.

Í öðru lagi talar hv. þingmaður um aukinn kostnað sem mundi vera því samfara að flytja flugvöllinn eitthvert annað, þá nefnir hann Keflavík sérstaklega. Gleymir þingmaðurinn ekki að það er önnur hlið á þessari jöfnu. Það er t.d. aukinn samfélagslegur kostnaður sem er fólginn í því og fyrir höfuðborgarbúa að flugvöllurinn sé í Vatnsmýrinni þannig að byggð á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjavík þróist alltaf lengra og lengra frá miðborginni. Í því ætti að vera fólginn aukinn kostnaður, meðal annars við akstur, þar með talinn slysakostnaður sem akstri fylgir. Það er kostnaður vegna vinnutaps vegna (Forseti hringir.) lengri fjarlægða frá miðborginni.

(Forseti (ÁI): Hv. þingmaður. Klukkan í borðinu er ekki rétt og forseti biður hv. þingmann að ljúka máli sínu.)

Já, ég skal gera það. Aukinn kostnaður vegna lakari nýtingar innviða. Ég þori nú varla að nefna aukinn umhverfiskostnað.

Ég vil spyrja hv. þingmann hversu oft Reykjavíkurflugvöllur fúnkerar sem varaflugvöllur.

Í þriðja lagi og síðasta lagi vil ég spyrja hann hvort hann telji ekki að (Forseti hringir.) það að taka skipulagsforræðið af sveitarfélaginu stangist (Forseti hringir.) á við 78. gr. stjórnarskrárinnar um sjálfsforræði sveitarfélaga?