141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[16:26]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi er sagt og lagt til að völlurinn verði í Reykjavík. Það er orðað þannig. Ekki er tekið sérstaklega fram að hann skuli vera í Vatnsmýri. Menn horfa þá kannski til lengri tíma. Ef fram koma aðrar lausnir sem eru ásættanlegar verður hægt að horfa til þeirra til lengri tíma litið.

Ég tel að aukinn kostnaður fyrir höfuðborgarbúa af því að hafa völlinn í Vatnsmýrinni þurfi ekki að vera ágreiningsefni í þessu máli. Vinnustaðir í borginni, á höfuðborgarsvæðinu, eru auðvitað úti um allan bæ. Fólk býr stundum nálægt vinnustað sínum og stundum ekki, þannig að ég sé ekki að það mundi breytast að stóru leyti þótt byggð mundi eflast í Vatnsmýrinni. Það er líka mjög auðvelt að mæta þessum tveimur sjónarmiðum vegna þess að sýnt hefur verið fram á með hönnun og skipulagi að hægt er að byggja mikið í Vatnsmýrinni í sátt við flugvallarstæðið. (Gripið fram í.) Það er hægt að aðlaga reksturinn og byggðina miklu betur hvort að öðru. Nú er miklu minni truflun af flugstarfsemi og flugvélum en áður. Það á enn eftir að batna í komandi framtíð.

Hversu oft er völlurinn nýttur sem varaflugvöllur? Hann er mjög oft nýttur sem varaflugvöllur. Í millilandaflugi og í innanlandsflugi verður að setja upp varaflugvöll til að hafa á þeirri leið sem flogin er. Reykjavíkurflugvöllur er mjög mikið notaður sem varaflugvöllur af þeim vélum sem fljúga þá leið. Það þyrfti að koma upp öðrum varavelli ef hann væri ekki til staðar.

Varðandi skipulagsmálin tel ég ekki að þetta brjóti lög. Ég lét sérstaklega kanna það fyrir mig hvort við værum hér að brjóta lög. Það var ekki mat þeirra sem það skoðuðu. Ég tel (Forseti hringir.) því að hér sé býsna langt gengið, eins og ég sagði áðan, gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaga, (Forseti hringir.) en stundum er það bara nauðsyn þar sem almannahagsmunir eru svo ríkir í þessu efni.