141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[16:29]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að forsendan fyrir því að hægt sé að fara í einhverja raunverulega vinnu við málið sé að fyrir liggi ítarleg úttekt á kostum og göllum og á kostnaði á báða vegu. Ég man ekki betur en gerð hafi verið úttekt á því á sínum tíma hver kostnaðurinn væri fyrir höfuðborgarsvæðið eða fyrir höfuðborgina sérstaklega að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Slíkar úttektir eru til. Það kann að vera að þær þurfi að uppfæra, en þær hljóta að vera innlegg inn í umræðuna á vettvangi þeirrar nefndar sem fær málið til meðferðar, sem ég vænti nú að verði að þessu sinni umhverfis- og samgöngunefnd. Ég heyrði hv. þingmann ekki gera neina tillögu í því efni í framsögu sinni, en ég reikna með að um það gæti orðið þokkaleg sátt að hún fái málið til meðferðar. Ég tel að það hljóti að vera.

Í öðru lagi finnst mér þingmaðurinn segja að nauðsyn geti nánast brotið lög, í þessu tilfelli jafnvel stjórnarskrána. Það tel ég að þurfi að rannsaka mjög gaumgæfilega vegna þess að það mundi setja mjög slæmt fordæmi ef Alþingi tekur með lagasetningu fram fyrir skýrt skipulagsforræði sveitarfélagsins hvað þetta áhrærir, ekkert endilega bara í flugvallarmálum, það getur átt við í ýmsum öðrum málum. Þá má ekki afstaða til málsins sjálfs ráða því hvort menn vilja að Alþingi grípi fram fyrir hendur sveitarfélaganna hverju sinni, þannig að ég tel að mikið sé enn eftir óunnið í þessu efni.

Sjálfur hef ég talað fyrir því að undanförnu að menn þurfi hugsanlega að leita leiða til að samræma þau ólíku sjónarmið sem uppi eru en lítið hefur verið gert í því og lítill vilji virðist vera til þess að reyna að gera það. Mér finnst frumvarpið alls ekki vera skref í þá átt nema síður sé.