141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[16:33]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þessa umræðu bar bráðar að en ég ætlaði og ég heyrði þess vegna ekki fyrstu orð flutningsmanns. Ég biðst afsökunar á því ef þar hefur komið fram það sem ég er að spyrja um. Það vekur athygli að frá frumvarpi sem flutt var í fyrra, sama efnis og af sömu flutningsmönnum, og þar til nú hefur orðið orðalagsbreyting í 3. gr.

Á fyrra þingi stóð:

„Miðstöð innanlandsflugs skal starfrækt á Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri í Reykjavík.“

En nú stendur einungis að miðstöð innanlandsflugs skuli starfrækt í Reykjavík.

Ég spyr hvers vegna þessi breyting hefur orðið og hvort það standi í samhengi við ádeilu sem fyrsti flutningsmaður og líka aðrir háttvirtir — þar á meðal tveir þingmenn Reykvíkinga sem vekur athygli — urðu fyrir, m.a. frá borgarfulltrúum í Reykjavík, frá Gísla Marteini Baldurssyni, sem sagði á facebook-síðu sinni samkvæmt frétt á Eyjunni 4. nóvember 2011, með leyfi forseta:

„Hvað sem mönnum finnst um staðsetningu flugvallarins er það óþolandi ríkisforsjá að lögfesta flugvöll í Vatnsmýrinni. Sveitarfélög hafa ákvörðunarvald í eigin málum samkvæmt stjórnarskrá og sveitarstjórnarlögum en forræðishyggjan í þessari tillögu ætlar að taka þann rétt af Reykvíkingum.“

Gísli Marteinn Baldursson, sem er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hafi menn ekki vitað það, bætir svo við:

„Svo er frumvarpið vandræðalega illa unnið og órökstuddum fullyrðingum slegið fram í greinargerð af algerri vanþekkingu.“

Þetta er nokkuð hörð ádrepa og hugsanlegt að við henni hafi verið brugðist með því að taka orðin „Vatnsmýri í Reykjavík“ út. En mér heyrðist á ræðu hv. þingmanns að hann væri alltaf að tala um flugvöllinn í Vatnsmýri í Reykjavík þannig að það er eðlilegt að hann fái tækifæri til að skýra mál sitt hér.