141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[16:37]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það var ekki mikið á þessu að græða. Hv. flutningsmaður hefur tekið út þessi orð og þingmennirnir með honum, þar á meðal tveir þingmenn Reykvíkinga, Vigdís Hauksdóttir og Illugi Gunnarsson, (Gripið fram í.) en þau meina samt flugvöllinn í Vatnsmýrinni. (Gripið fram í.) Það er þannig sem þetta er, þau vilja flugvöll í Vatnsmýrinni og þau vilja taka skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg í því efni. Það er sérkennilegt að sjá að það skuli vera þingmenn Reykvíkinga sem leggja það til.

Þá er spurning: Ef skapa á sátt um þetta er þá sáttin ekki sú að við getum verið ásátt um að — ég held að enginn borgarfulltrúi, hvorki úr Sjálfstæðisflokki né neinum öðrum flokki, mótmæli því — að almennilegur flugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur, sé í nágrenni höfuðborgarinnar. Er það ekki það sem við eigum við? Ef flugvöllurinn er í þeirri fjarlægð frá höfuðborginni sem til dæmis Keflavíkurflugvöllur er þá verður það að vera forsenda að sem allra bestar samgöngur séu tryggðar — þar á meðal, forseti, ég þori varla að nefna það, fyrir fólk sem hv. þm. Jón Gunnarsson þekkir ekki, almenningssamgöngur frá flugvellinum og að kjarna Reykjavíkur, að byggðunum í höfuðborginni allri.

Ef hv. þingmaður væri reiðubúinn að breyta frumvarpinu með þeim hætti að miðstöð innanlandsflugs skuli starfrækt í grennd við Reykjavík, í nágrenni Reykjavíkur, á stórhöfuðborgarsvæðinu, innan þríhyrningsins Keflavík, Borgarnes, Árborg, væri ég reiðubúinn að taka þátt í þessu með hv. þingmanni að því tilskildu að skipulagsvald Reykjavíkur væri ekki skert né annarra sveitarfélaga í nágrenninu, þar á meðal þeirra sem hv. þm. Jón Gunnarsson er fulltrúi fyrir hér á þinginu.