141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[16:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var einstaklega góð spurning vegna þess að í henni kemur fram sú þröngsýni og fastheldni sem sumir stjórnmálamenn eru fastir í. Sumir þingmenn líta svo á að ef einhvern tímann hefur verið tekin ákvörðun megi ekki breyta henni.

Stjórnmálaflokkur er aldrei neitt annað en það fólk sem í honum er á hverjum tíma og þeir frambjóðendur sem eru kosnir til áhrifa. Úr því að þingmaðurinn nefndi að hér hefði verið ákveðin borgarstjórn á sínum tíma þá er mér að sjálfsögðu fullkunnugt um það, þó það nú væri. En það er ekki þar með sagt að þó að einhver ákvörðun hafi verið tekin á einhverjum tíma sé ekki hægt að breyta henni um ókomin ár. Mér finnst þessi hugsunarháttur afskaplega dapurlegur, sérstaklega þegar tiltölulega ungir þingmenn eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson tala um að engu megi breyta.

Nú ætla ég að nota orð hæstv. forsætisráðherra, sem ekki er í salnum: Það varð hrun eins og allir vita. Við ætluðum að læra eitthvað af hruninu. Nú þurfum við að taka höndum saman, allir stjórnmálaflokkar, landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið, og byggja nýja framtíð. Við þurfum að finna út úr því hvernig í fyrsta lagi er hægt að koma atvinnulífi aftur af stað, í öðru lagi skynsamlegum hugmyndum og í þriðja lagi að nota fjármagnið rétt og hætta að sóa ríkisfé, en því miður, eins og ég kom inn á í ræðu minni, kunna vinstri menn það langbest af öllu.

Fyrir utan öll þau rök sem ég fór yfir fyrir því að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni þá er líka langhagstæðast fyrir ríkissjóð að hafa flugvöllinn þar áfram vegna þeirra endurbóta sem farið var í á undirlagi flugvallarins. Það er þetta sem skiptir máli: Hættum að sóa peningum.