141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[17:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki alveg á hvaða leið umræðan er í þessum andsvörum. Ég hélt að ég hefði sagt að að sjálfsögðu ættu stjórnmálaflokkar að skipta um skoðun, sérstaklega ef ríkir almannahagsmunir leiddu þau skoðanaumskipti af sér.

Ég hef til dæmis verið gagnrýnd fyrir að ég skuli ekki sjá nokkurt vit í því að byggja hátæknisjúkrahús í Vatnsmýrinni, sem kostar tugi milljarða, í þeim samdrætti og niðurskurði sem hér á sér stað þegar ekki er hægt að kaupa tæki fyrir Landspítalann. Framsóknarflokkurinn stóð fyrir því á sínum tíma en nú eru breyttir tímar. Hér þarf sífellt að skera niður í ríkisrekstri, þess vegna verðum við að sýna skynsemi í því sem við gerum og hugsa vel um í hvað opinberu fé er eytt, sérstaklega í ljósi þess að almenni vinnumarkaðurinn hefur dregist mikið saman og skilar ekki þeim skatttekjum sem hann gerði hér á árum áður auk þess sem atvinnuleysi er mikið. (Gripið fram í.)

Ég hélt að ég hefði farið yfir það að Framsóknarflokkurinn hefði komið að því aðalskipulagi sem byggir á því að flugvöllurinn eigi að fara úr Vatnsmýrinni. Jú, Framsóknarflokkurinn var aðili að Reykjavíkurlistanum en það eru bara nokkuð mörg ár síðan það slitnaði upp úr því samstarfi. Það eru breyttir tímar. Hv. þingmaður sagði að ég talaði bara um einn flokk sem vildi flugvöllinn burt. Virðulegi forseti, ég veit að hv. þingmaður tekur alltaf upp hanskann fyrir Samfylkinguna en ég sagði þó að hæstv. innanríkisráðherra, sem er flokksbróðir hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, væri á sömu skoðun og við, flutningsmenn þessa frumvarps, að flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni og ég veit að undir það taka fleiri innan Vinstri grænna.