141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[17:27]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að það er eðlilegt, nauðsynlegt og gott að fá tækifæri til að ræða þessi mál í þinginu. Það er líka rétt sem komið hefur fram að það eru skiptar skoðanir innan allra pólitískra flokka og hreyfinga, hygg ég vera, í þessu máli og helgast það kannski frekast af búsetu manna og þeirri orðræðu sem uppi hefur verið um það hvers vegna nauðsynlegt er að mati margra að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni.

Ég hef verið talsmaður þess að takmarka flug um Reykjavíkurflugvöll og ef ekki dugir að ná neinni sátt um slíkt, að láta hann þá fara. Ég tel að málið snúist ekki bara um peninga, um fjölda atvinnutækifæra, um tímann sem menn þurfa að nota til að fara á milli staða eða um lóðir sem hagkvæmt er að byggja á eða ekki hagkvæmt. Ég tel að málið snúist um öryggi flugsins annars vegar og öryggi byggðarinnar hins vegar.

Ég var á sínum tíma formaður áhættumatsnefndar, nefndar sem átti að meta áhættu vegna Reykjavíkurflugvallar og var að störfum frá 1988–1991. Tilefni þessa var mjög dapurlegt. Það var alvarlegt slys þar sem tveir menn fórust í Vatnsmýrinni við Hringbrautina á árinu 1988. Lauslegt mat á áhættu á þeim tíma á hversu oft væri hætt við svo alvarlegu slysi á vellinum miðað við umferð leiddi í ljós, ef ég man rétt, að á 10–11 ára fresti mætti búast við að hér yrði alvarlegt slys miðað við óbreytta umferð og aðbúnað. Því miður varð alvarlegt slys 12 árum eftir að nefndin var sett niður þegar sex manns, þar á meðal fimm ungmenni, fórust í Skerjafirði við enda austur/vestur-brautarinnar.

Ég vil vekja athygli á því að það er auðvitað allt satt og rétt sem hér hefur verið sagt um það hvernig að þessum flugvelli og staðarvalinu var staðið á sínum tíma. Þetta var auðvitað bara herflugvöllur sem Bretar skelltu niður í Vatnsmýrina í stríðsbyrjun. Þáverandi bæjarstjórn í Reykjavík mótmælti því harðlega vegna þess að hún taldi að flugvöllurinn væri allt of nærri byggðinni sem þá var auðvitað allt önnur en nú er og alls ekki eins nærri flugvellinum og nú. Þá var ekki mikið verið að velta sér upp úr öryggisbúnaði eða mengunarvarnabúnaði í Vatnsmýrinni og stríðsrekendur á árunum 1940–1945 hafa líklega haft meiri áhyggjur af loftárásum en hljóðmengun eða loftmengun, sem eðlilegt er. Þegar Íslendingar tóku síðan við rekstri flugvallarins í stríðslok þróaðist hann að mestu skipulagslaust. Segja má að malbiki hafi verið slett ofan í holur og niður í mýrina þegar leggja þurfti nýjar brautir eða þegar einhver flugbrautin seig ofan í mýrina, því að það hefur oft komið fyrir.

Þegar Reykjavíkurborg gerði sitt fyrsta aðalskipulag á árunum 1960–1964 var í raun fyrst farið að fjalla um stöðu flugvallarins skipulagslega í borgarlandinu. Þá óskuðu flugmálayfirvöld eftir því að fá að leggja tvær 2.000 metra langar brautir í mýrina vegna þotuflugsins sem þá var í augsýn. Því var neitað, borgarstjórn neitaði því og samþykkti þvert á móti að leita skyldi að öðru flugvallarstæði fyrir millilandaflugið sem þoturnar áttu að þjóna. Það endaði á því að Loftleiðir fluttu allt sitt flug til Keflavíkur 1964 og Flugfélag Íslands flutti millilandaflug sitt þangað 1967. Síðan á svo að heita að millilandaflug sé ekki rekið frá Reykjavíkurflugvelli með þeirri undantekningu þó sem við þekkjum að flug til Grænlands og til Færeyja hefur alltaf meira og minna verið þar. Segja má að það sé vegna þess að við lítum kannski ekki á það sem eiginlegt millilandaflug, það er einhvern veginn öðruvísi.

Hins vegar hefur umferðin um Reykjavíkurflugvöll ekki einskorðast við innanlandsflugið og flug til Færeyja og Grænlands heldur hefur þar verið og er enn talsvert mikil umferð af öðrum toga. Ég vil nefna varðandi millilandaflugið að hér fara oft og tíðum um einkaþotur. Ég hygg að í morgun hafi lent einkaþota heimsfrægrar söngkonu, ég býst við því að hún hafi lent á Reykjavíkurflugvelli en ekki á Keflavíkurflugvelli. Hér á árum áður, þegar útrásin var sem mest, voru umræður í þingsal um að 17 einkaþotur væru á flugvellinum og mynd birtist af þeim í einhverjum blöðum bæjarins. Einkaflug á þotum er því umtalsvert um þennan flugvöll.

Það er líka talsvert um herflug hér. Hingað koma hópar eða einstaka flugvélar til lendingar og ber við að hér lendi farþegaflugvél í millilandaflugi. Áhættumesta flugið í millilandafluginu er hins vegar ferjuflugið. Því hefur að mestu verið komið til Keflavíkur en mikil andstaða var við það á sínum tíma. Kennsluflug og æfingaflug hefur verið langstærsti hluti umferðar um Reykjavíkurflugvöll og er eðlilegt að menn þurfi að æfa bæði aðflug og fráflug frá þessum velli, en það er ekkert sem kallar á að öll sú umferð sem verið hefur um flugvöllinn af þessu tagi, þ.e. kennslu- og æfingaflugi, þurfi að fara hér fram. Íbúar miðborgarinnar og Kópavogs vita að það er gríðarlega mikil truflun af því, sérstaklega á góðviðrisdögum þegar það heyrist vart mannsins mál fyrir litlum flugvélum sem eru í æfinga- og hringflugi yfir miðborginni.

Svo vil ég nefna eitt atriði til viðbótar sem er mjög áhættusamt og fer fram á flugvellinum sem ég tel ekki vansalaust, það eru flugsýningar sem ættu ekki að fara fram að mínu viti yfir þéttbýli eins og hér er.

Nú hef ég talið upp það sem mér fyndist að mætti víkja af þessum flugvelli ef sátt á að nást um að hann eða að einhver hluti hans verði áfram í Vatnsmýri. Hvað er þá eftir? Það er áætlunarflug innan lands plús Færeyjar og Grænland, eins og ég hef nefnt, en einnig sjúkra- og leitarflug, þ.e. þjónustuflugið, bæði með sjúkraflugvélum og þyrlum. Það tel ég að þurfi að tryggja stað fyrir, ef ekki þar sem núverandi flugvöllur er þá í næsta nágrenni höfuðborgarinnar og er auðvitað ódýrast fyrir okkur að horfa til Keflavíkurflugvallar í því sambandi.

Ég verð að segja að ég gef ekkert fyrir þær röksemdir að Reykjavíkurflugvöllur geti verið varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll sem miðstöð millilandaflugs vegna þess að Reykjavík og Keflavík eru á sama veðursvæði. Þegar ófært er til Keflavíkur í lendingar dugir ekki að lenda í Reykjavík. Það er möguleiki í eitt skipti af ég man ekki hvað mörgum. Þess vegna er Egilsstaðaflugvöllur varaflugvöllur bæði fyrir Reykjavík og Keflavík vegna þess að þar eru veðurskilyrði önnur. Ef það er ekki hægt þá er Skotland næsti kostur. Þess vegna þýðir ekki að lögfesta það hér að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Það gengur ekki veðurfarslega, ágætu þingmenn.

Ég nefndi það að áhættumatsnefndin sem skilaði skýrslu 1991 gekk út frá því að flugstarfsemi yrði enn um hríð í Vatnsmýrinni og á Reykjavíkurflugvelli. Það er orðið býsna langt síðan. Það var í kringum 1990, það eru rúm 20 ár síðan. Í millitíðinni hefur Reykjavíkurborg ákveðið að láta norður/suður-brautina víkja fyrir lok skipulagstímabilsins sem er 2016, en hin flugbrautin og allur flugrekstur fari í burtu síðar. Ég tel að miðað við þá fjárhagsstöðu sem við erum í, og ég get tekið undir það sem hér hefur verið sagt, sé ekki fýsilegur kostur að loka flugvellinum á allra næstu árum. Ég hef ekki verið talsmaður þess nema menn séu ekki tilbúnir að breyta umferð um flugvöllinn og breyta skipulagi flugs um flugvöllinn. Það á og verður að mínu viti að stýra betur að- og brottfluginu hér. Það verður að takmarka og loka fyrir, nema í algerri neyð, það flug sem ég taldi upp sem er ferjuflugið, millilandaflugið, herflugið, einkaflugið og flugsýningar, áhættumestu þættina í flugstarfseminni yfir þéttbýlasta svæði landsins. Það verður að mínu viti að loka norður/suður-brautinni og koma í veg fyrir lágflug og brottflug yfir þéttbýlasta hluta landsins, yfir miðstöð stjórnsýslu og menningarlífs í miðborginni.

Ég vil minna á að það voru meðal annars tillögur þessarar nefndar sem leiddu til þess að norðaustur/suðvestur-brautinni var lokað, en hún var sú langhættulegasta á flugvellinum. Hún var einungis notuð þegar veðurskilyrði voru þannig að ómögulegt var að lenda annars staðar og í aðflugi snertu menn nánast byggingar Landspítalans. Það var gríðarlega áhættusamt. Það er búið að loka þeirri braut. Enn kalla menn þó eftir því að hún verði opnuð aftur, eins og það sé nauðsynlegt. Það er önnur flugbraut sem liggur í sömu stefnu á Keflavíkurflugvelli og er eðlilegt að hún sé notuð ef til þess þarf að koma.

Ég tel að ná þurfi sátt um Reykjavíkurflugvöll. Ég held að það sé hægt. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur bent á að ef ein flugbraut væri á Reykjavíkurflugvelli mætti reikna með að ekki væri svo mikill munur á nýtingunni, hún færi úr 97% niður í 92%. Ég hefði talið að umræður og athuganir á þessu stigi ættu annars vegar að beinast að Keflavík og sterkum og öruggum samgöngum þangað og hins vegar að því að lengja austur/vestur-brautina og skekkja hana út í Skerjafjörð, leggja Suðurgötuna undir hana og flytja alla miðstöð flugsins, þ.e. þjónustuna, yfir á vestari helminginn frá Öskjuhlíðinni því að þar er hindrun sem er mjög áhættusöm.

Talsvert hefur verið rætt í tengslum við hugmyndir um byggingu nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss að það sé stórhættulegt fyrir þjónustu við sjúkt fólk, sérstaklega á landsbyggðinni eða jafnvel höfuðborgarbúa sem slasast úti á landi, það gæti nú líka gerst, að loka Reykjavíkurflugvelli. Ég vil minna á að sjúkraflug með venjulegum flugvélum er vissulega mikilvægt. Þyrluflugið er það líka. Stærsti hluti sjúkraflugsins með venjulegum sjúkraflugvélum er pantað en ekki neyðarflug. Miklu stærri hluti af neyðarfluginu er með þyrlum. Þó að flugvöllurinn færi héðan er gert ráð fyrir þyrlupalli við Landspítalann.

Frú forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að það er gengið býsna nærri lögum um sjálfsforræði sveitarfélaga með því að gera frumvarp sem skerðir algerlega skipulagsvald Reykjavíkurborgar eins og hér er gert. En ég vil fyrst og fremst leggja áherslu á að þetta er spurning um öryggi þeirra hundraða þúsunda sem búa undir flugbrautunum í að- og fráfluginu, og þetta er spurning um öryggi í flugi. (Forseti hringir.) Sambýli flugs og byggðar og öryggi beggja þátta er það sem málið snýst um.