141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[17:55]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að höfuðborgin hafi skyldur og reyndar finnst mér það algjörlega augljóst. Það er augljóst í mínum huga að horfa verður til margra þátta í því. Við höfum byggt stjórnsýslu okkar, mennta- og heilbrigðiskerfið, svo að dæmi sé tekið, á þeim grunni að hafa hér öflugt innanlandsflug. Leiða má líkum að því að ef við flytjum flugið til Keflavíkur þurfi að endurskipuleggja það kerfi okkar.

Við þurfum þá að forgangsraða upp á nýtt. Gæti það orðið til þess að við þyrftum til dæmis að íhuga aðra staðsetningu fyrir hátæknisjúkrahús? Þyrfti það þá ekki að vera nær Keflavík? Þyrftum við að breyta stjórnsýslunni, færa hluta af þjónustunni út á land til að uppfylla þau skilyrði? Þetta snýst allt um lífsgæði og er mjög mikilvægt í því samhengi. Leiða má að því líkum, eins og kemur fram í skýrslu sem lögð var fram fyrir tveimur vikum, að menningar- og atvinnulíf á mörgum stöðum yrði líka einhæfara fyrir bragðið.