141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[17:57]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili fullkomlega sjónarmiðum hv. þingmanns um hlutverk höfuðborgarinnar. Við erum ekki með það stórt land að við höfum efni á að reka margar höfuðborgir en við viljum gjarnan hafa eina góða og öfluga sem axlar ábyrgð sína sem höfuðborg, sem axlar ábyrgð sína sem þjónustumiðstöð fyrir landið allt og sinnir þá meðal annars innanlandsflugi. Innanlandsflugið er nú á Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni.

Sterk rök þyrfti að færa fyrir því ef færa ætti flugið eitthvert annað. Við eigum allra síst að vera stöðugt með vífilengjur í kringum þetta og koma með því í veg fyrir eðlilega uppbyggingu og eðlilegt traust til höfuðborgarinnar hvað þetta varðar. Það er ekki af hinu góða. Við eigum að hafa öfluga höfuðborg sem er þess megnug að standa að eðlilegri þjónustu og uppbyggingu í landinu öllu og með höfuðborgarflugvöllinn í Vatnsmýrinni.