141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[18:00]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel, eins og fram kom í máli mínu áðan, að hægt sé að ná sátt og tryggja hér sambýli flugs og byggðar ef menn sem stjórna flugmálum í landinu væru tilbúnir til að takmarka umferð um Reykjavíkurflugvöll við innanlandsflugið, sjúkraflug og neyðarflug. Það hefur hins vegar aldrei verið vilji til þess, það verður bara að segjast eins og er. Ef menn eru ekki tilbúnir til þess enn þá að fara í þann leiðangur er ekki bara tímabært heldur nauðsynlegt að flugvöllurinn víki, að mínu mati.

Það hefur aldrei verið vilji til að fara í neinar málamiðlanir. Flugmálayfirvöld hafa engu viljað breyta, ekki einu sinni að beina aðflugi og brottflugi frá byggðinni og fara frekar með það yfir sjóinn. Reykjavíkurborg hefur alltaf þurft að setja einhliða takmarkanir á starfsemi á flugvellinum til að tryggja öryggi, það er bara þannig. Flugmálayfirvöld hafa ekki gert það. Það var að kröfu Reykjavíkurborgar sem millilandaflugið fór héðan. Það var að kröfu Reykjavíkurborgar sem þær eru takmarkaðar hér og að brottflug og lendingar eftir kl. 11 á kvöldin eru bannaðar nema í neyð. Það er að kröfu Reykjavíkurborgar sem hringsól hefur verið takmarkað yfir flugvellinum og miðborginni á nóttinni á björtum sumarnóttum og á kvöldin og um helgar til að menn fái frið og það er líka að kröfu Reykjavíkurborgar sem þessu áhættusama ferjuflugi hefur verið vísað í burtu.

En það hefur aldrei verið neinn vilji, það hefur aldrei verið hægt að ræða við samgönguyfirvöld, ekki einu sinni ráðuneytið. Nú ræðum við þessi mál í þinginu og þá er 1. flutningsmaður farinn að mála skrattann á vegginn og kalla alla öfgamenn ef þeir eru ekki sammála honum. Það lofar ekki góðu, því miður.