141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

155. mál
[18:50]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli stuttlega í lok þessa þingdags fyrir þingmáli nr. 155, á þingskjali 155, sem auk mín flytur einn fulltrúi úr hverjum þingflokki sem starfar í þinginu. Þeir eru hv. þingmenn Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, Margrét Tryggvadóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar, og Álfheiður Ingadóttir, þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Málið var einnig flutt á síðasta löggjafarþingi, þá af öðrum hópi þingmanna, og hefur verið til umfjöllunar í þinginu frá því að samningurinn um réttindi barnsins, Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, var fyrst gerður árið 1989 og síðan staðfestur af Íslandi og er nr. 2 frá 18. nóvember 1992. Samningurinn hefur síðan verið til umfjöllunar nokkrum sinnum í þinginu, m.a. fyrir tilstuðlan hv. fyrrverandi þingmanns, Rannveigar Guðmundsdóttur, sem beitti sér fyrir því að farið yrði í könnun á því úr hverju þyrfti að bæta til þess að unnt væri að staðfesta sáttmálann á ýmsum sviðum. Síðan hafði hv. fyrrverandi þingmaður, Ágúst Ólafur Ágústsson, frumkvæði að því að flytja þingsályktunartillögu um að samningurinn yrði ekki aðeins staðfestur heldur lögfestur eins og dæmi eru um um mannréttindasáttmála og er til þess gert að tryggja með óyggjandi hætti lagalega stöðu mikilvægra mannréttindasáttmála. Það er sjónarmiðið sem býr að baki lögfestingu barnasáttmálans og valfrjálsu bókananna um bann við barnavændi, bann við sölu á börnum og bann við því að börn taki þátt í vopnuðum átökum, að sáttmálinn verði lögfestur hér þannig að lagagildi hans í íslenskum rétti verði algjörlega ótvírætt og yfir allan vafa hafinn og hafi þá sterku stöðu sem lögfesting sáttmálans færir honum og þau áhrif sem það hefur á réttinn almennt. Til þess að svo megi verða þarf meðal annars að gera sérstakar ráðstafanir sem lúta að ungum afbrotamönnum og gerðar hafa verið athugasemdir við af hálfu þeirra sem hafa haft eftirlit með framkvæmd sáttmálans. Er gert ráð fyrir því í frumvarpinu eins og það liggur nú fyrir.

Meiri hluti Alþingis samþykkti árið 2009, hygg ég að það hafi verið, þingsályktunartillögu þar að lútandi að lögfesta skyldi sáttmálann innan þess árs, að hér skyldi koma fram lagafrumvarp þess efnis. Það lagafrumvarp hefur látið á sér standa. Þess vegna höfum við flutningsmenn brugðið á það ráð að semja einfaldlega lagafrumvarpið og leggja það hér fram sjálf þannig að Alþingi geti fylgt eftir samþykkt sinni um að lögfesta eigi sáttmálann.

Þó að börn á Íslandi búi sem betur fer við ríkari og meiri mannréttindi en börn búa við víðast hvar annars staðar í heiminum þá er afar mikilvægt að við tryggjum þann lagalega grundvöll sem mannréttindi þeirra hvíla á og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er grundvallargagn í því efni.