141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég veit að það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að hún hefur skrifað töluvert og talað mikið um tillögur stjórnlagaráðs og um stjórnarskrárbreytingarnar og ég held að ekki sé vitlegt að draga neitt úr því.

Það sem hér kemur fram í umræðunni er hins vegar merkilegt og það er hið mikla 40 síðna plagg Péturs H. Blöndals um þessar breytingar. Það er það fyrsta sem maður heyrir frá Sjálfstæðisflokknum efnislega um málið. Nú hef ég ekki séð þessar 40 síður en ég vona að hann hafi dreift þeim í þingflokknum vegna þess að það sem okkur hefur hingað til vantað sem skýringu á nei-i hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, við atkvæðagreiðslunni og við tillögum stjórnlagaráðsins er hvaða efnislegar athugasemdir eða andmæli (Gripið fram í.) formaður Sjálfstæðisflokksins og Sjálfstæðisflokkurinn í heild hefur við stjórnarskrártillögurnar eins og þær eru. Ef það eru 40 síður Péturs Blöndals og hann hefur verið útnefndur foringi Sjálfstæðisflokksins í þessum málum er gott að vita það.

Hér situr hv. þm. Illugi Gunnarsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Það væri gott að vita þetta vegna þess að við vitum ekki á hvaða grunni andmælin eru. Við höfum verið að geta okkur þess til á hvaða grunni þau kunni að vera. Ég held til dæmis að það kunni að vera auðlindaákvæðið, hið sérstaka auðlindaákvæði sem stendur í Sjálfstæðisflokknum. Þá hristir Pétur H. Blöndal höfuðið og þá er rétt að skýra það.

Ég horfi aftur fram á annan bekk þar sem situr Illugi Gunnarsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og spyr beinlínis: Ef það er ekki auðlindaákvæðið, hvaða efnisatriði eru það þá í tillögum stjórnlagaráðsins sem Sjálfstæðisflokkurinn er svo mikið á móti? Ég spyr hvað það er sem hann leggst svo mikið gegn að hann hvetur stuðningsmenn sína, í gegnum munn formanns síns, til að segja nei við allri þeirri vinnu og öllu því ferli sem hefur verið í gangi frá því hruni sem Sjálfstæðisflokkurinn einkum stóð fyrir.