141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru fjölmargar greinar þessara draga sem gera má athugasemdir við. Ég ætla að nota tíma minn og taka til eina grein, 87. gr. til að nefna dæmi um það hvers vegna ég hef verulegar efasemdir um allt þetta mál.

Í henni er lagt til, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin taki ákvarðanir sameiginlega um mikilvæg eða stefnumarkandi málefni samkvæmt nánara ákvæði í lögum.

Hvað þýðir þetta? Það þýðir að við ákveðnar aðstæður, þ.e. þegar um er að ræða mikilvæg eða stefnumarkandi mál, skal ríkisstjórnin breyta um eðli og verða svokallað fjölskipað stjórnvald. Af því að við erum að tala um stjórnarskrá þá skiptir miklu máli hvað hlutirnir þýða. Hvenær eru mál stefnumarkandi og hvaða mál eru mikilvæg? Það þarf að skilgreina það þannig að hægt sé að framfylgja þessu ákvæði. Þegar litið er til greinargerðarinnar sem fylgir er því miður ekki mikið að græða á henni, þar stendur, með leyfi forseta:

„Afmörkun á því hvað telst mikilvægt eða stefnumarkandi getur verið að hluta í lögum“ — og virðulegi forseti, það er þá okkar þingmannanna að skilgreina það — „og, með heimild í lögum, að hluta eftir forsætisráðherra, eftir atvikum í samráði við aðra ráðherra. Þau mál sem ekki falla undir þessa afmörkun eru áfram á forræði og ábyrgð þess ráðherra sem málefnið heyrir undir. Afmörkunin getur jafnframt breyst í tímans rás eftir því sem löggjafinn ákveður, reynsla gefur tilefni til og samfélagið þróast.“

Þetta er það sem lagt er upp með hvað varðar fyrirkomulag mála hjá ríkisstjórninni. Stundum á hún að vera fjölskipað stjórnvald, stundum ekki. Hvernig það er afmarkað hvort mál séu mikilvæg eða stefnumarkandi las ég upp áðan. Sér nú hver maður hvers lags vitleysa þetta er. Hvernig í ósköpunum á að standa að stjórn landsins ef þetta á að verða fyrirkomulagið sem lagt er til grundvallar fyrir störf ríkisstjórnarinnar? (Forseti hringir.) Það er ekki furða þótt margir hafi verulegar áhyggjur af því að málið sé ekki nægilega vel rætt og (Forseti hringir.) rangt að fara með það fram með þeim hætti sem stjórnarmeirihlutinn hefur gert.