141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er í hæsta máta óvenjulegt að bornar séu fram spurningar undir þessum lið án þess að láta fólk vita. Ég kvaddi mér hér hljóðs til þess að ræða um allt annað málefni, en til að svara hv. þm. Helga Hjörvar get ég upplýst að það stóð aldrei annað til en að tillögur Sjálfstæðisflokksins yrðu lagðar fram og kæmu til umræðu þegar við ræddum og tækjum fyrir stjórnarskrána og tillögur um breytingar á henni á Alþingi. Ég veit ekki til þess að við höfum séð þá umræðu líta dagsins ljós á þinginu. Til að upplýsa þingmanninn frekar er því miður ekki verið að kjósa um tillögur Sjálfstæðisflokksins í þeirri skoðanakönnun sem fram fer 20. október. Það var ekki í boði að Sjálfstæðisflokkurinn legði fram sínar spurningar eins og við vitum.

Það sem ég ætlaði að ræða hér er Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið. Hv. formaður utanríkismálanefndar, Árni Þór Sigurðsson, kom hingað í gær og sagði að tímabært væri að fara yfir og endurskoða kosti og galla EES-samningsins. Mér þykir það í sjálfu sér í fínu lagi og fagna því að formaður utanríkismálanefndar sé nú farinn að horfa meira til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið en til Evrópusambandsins. Það tel ég vera gott. Hann vísaði einnig í nýlega skýrslu Norðmanna sem tóku þetta mál fyrir á vordögum og að Íslendingar ættu að gera sambærilega úttekt á samningnum. Ég spyr: Af hverju þurfum við að gera það, getum við ekki notfært okkur það starf sem Norðmennirnir fóru í? Þetta er sama EES-svæðið sem við erum í með Norðmönnum.

Ég las þessa skýrslu á sínum tíma og rauði þráðurinn þar er að framkvæmdin á samningnum hafi gengið vel, að vandamál honum tengd séu meira í prinsippinu en í praxís og að Norðmenn sætti sig við (Forseti hringir.) lýðræðishallann vegna annarra hagsmuna og gilda sem meiri hluti Norðmanna telur að EES-samningurinn verji og varðveiti. Niðurstaða Norðmanna var því sú að EES-samningurinn fullnægði þeirra þörfum. (Forseti hringir.) Á honum má gera lagfæringar og ég held að við ættum að taka skýrslu Norðmanna sem fyrst til umfjöllunar í utanríkismálanefnd.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á tímamörkin. Ræðutími er tvær mínútur undir þessum lið.)