141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja athygli á miklu réttlætismáli sem varðar misgengi á fyrirframgreiðslu námslána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Eins og allir vita eru þau eftirágreidd en ekki um samtímagreiðslur að ræða og geta fyrsta missiris nemendur í háskólum lent í því — eins og sá er við mig hafði samband og ég hef fylgst með í þessu máli — að fá höfnun frá fjármálafyrirtæki um fyrirframgreiðsluna á þeim forsendum að viðkomandi sé í samþykktu greiðsluaðlögunarferli hjá umboðsmanni skuldara. Bankarnir telja að ekki sé hægt að lána þeim fyrir fram.

Í þessu tilfelli er um að ræða unga einstæða móður með tvö börn á framfæri á fyrsta missiri í Háskóla Íslands. Hún hefur fengið höfnun í öllum bönkunum og þó að aðstoðarmaður hennar hjá umboðsmanni skuldara hafi beitt sér líka af miklu afli hefur það engu breytt. Var því þrautaráðið að leita til sveitarfélagsins um framfærslustyrk þangað til námslánið fengist greitt en það tókst því miður ekki heldur. Viðkomandi sveitarfélag sá sér ekki fært að verða við því.

Ég vil vekja athygli á þessu því að þetta er mjög alvarlegt mál. Viðkomanda eru allar dyr lokaðar og ekkert annað blasir við en að hrökklast úr námi. Þetta er fullkomlega óskiljanleg framkoma hjá fjármálafyrirtækjunum og auðvitað sveitarfélaginu líka og til mikillar vansæmdar hvernig gengið hefur verið fram og það bitnar á þeim sem síst skyldi. Þeir sem aflið hafa og úrræðin hrekja þessa einstaklinga úr námi, dæmin eru nokkur, og skilja eftir á köldum klaka.

Ég nota tækifærið og skora á fjármálafyrirtækin og viðkomandi sveitarfélög að bregðast við þessu þannig að þeir fáeinu einstaklingar sem um ræðir þurfi ekki að hrökklast úr námi af þessum sökum. Það er mjög ósanngjarnt og ekki hægt að sætta sig við það.

Við munum við fylgja þessu eftir í viðkomandi þingnefnd og sjá til þess að þetta gangi fram eins og (Forseti hringir.) úrræði umboðsmanns gerðu ráð fyrir, þ.e. að bankarnir mundu bjarga þessu fólki um fyrirframgreiðslu þangað til eftirágreidd námslán fengjust greidd. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)