141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið nokkur umræða um atkvæðagreiðsluna 20. október. Það er mikilvægur dagur og stór í eflingu lýðræðis á Íslandi.

Hæstv. forseti. Það er líka mikilvægt fyrir Alþingi að vekja athygli á alþjóðlegum dögum sem tileinkaðir eru lýðræði, mannréttindum og forvörnum eða ákveðnum sjúkdómum og að þingmenn leggi við hlustir og heyri boðskapinn á hverjum tíma.

1. október var tileinkaður baráttunni gegn krabbameini og októbermánuður allur er undir kjörorðunum: Sýnum árvekni, tilgangurinn er augljós, sinnum krabbameinsleit, hugum að forvörnum, eflum rannsóknir og meðferðir.

Dagurinn í dag, 10. október, er alþjóðlegur geðheilbrigðisdagur. Hann er mikilvægur fyrir okkur öll til þess að efla geðheilbrigði. Fyrsta skrefið er að eyða fordómum gegn geðsjúkdómum. Þá þurfum við að efla forvarnir, geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslunni, þverfaglega vinnu, félagsleg úrræði og við þurfum að efla sérfræðiþjónustu um allt land. Þetta vitum við að við þurfum að gera. Það er stórt átak fyrir íslenska þjóð að breyta þeim hugsunarhætti, bæði meðal almennings og ekki síður innan heilbrigðisþjónustunnar, að líta á geðheilbrigðisþjónustu og geðheilbrigðismál sem alveg sérstakt verkefni og líkamleg mein, kvilla og meðferð sem aðgreind verkefni. Maðurinn er líkami og sál, þetta samþættist og við þurfum að huga að hvoru tveggja. Þess vegna er mikilvægt að hafa dag sem þennan til að minna okkur á að við þurfum að huga heildstætt að geðheilbrigðismálum. (Forseti hringir.) Ég fagna því að blaðinu Geðhjálp hafi nú verið dreift inn á öll heimili og vona að við tökum boðskap þessa dags til okkar.