141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Frá því að fjármálakerfið hér á landi hrundi haustið 2008 hefur ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar unnið ötullega að því að reisa við efnahag landsins. Hrunið hafði í för með sér gríðarlegar afleiðingar fyrir efnahag og afkomu í samfélaginu, fyrir heimili, atvinnulíf, ríkissjóð og sveitarfélög. Það var tröllaukið verkefni sem ríkisstjórnin tók að sér í ársbyrjun 2009.

Hvernig hefur tekist til, frú forseti? Erum við betur sett nú en við vorum haustið 2008 og í ársbyrjun 2009? Um það velkist væntanlega enginn í vafa að okkur hefur skilað vel áleiðis þó að margt sé að sjálfsögðu fram undan í þeim efnum. Nýlegar tölur sem Hagstofan hefur birt sýna að ráðstöfunartekjur heimilanna á árinu 2011 hafa aukist um 9,6% frá árinu 2010 og þar með snýst við sú þróun sem heimilin hafa búið við frá hruni en ráðstöfunartekjur heimilanna lækkuðu bæði árin 2009 og 2010. Þessi aukning ráðstöfunartekna heimilanna í fyrra þýðir að kaupmáttur þeirra jókst um 5,1%. Það sem hér veldur er að heildartekjur heimilanna, þ.e. laun, bætur o.fl., hafa hækkað frá árinu 2010 til 2011 en fleira skiptir máli eins og að eignaútgjöld heimilanna hafa lækkað um 20%, þar með talin vaxtagjöld sem greidd eru af eignum í kjölfar margvíslegra ráðstafana sem ríkisstjórnin greip til. Allt vinnur þetta saman að því að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og kaupmáttinn.

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að við höfum þetta í huga, að við gerum okkur grein fyrir því að margt hefur áunnist. Við megum ekki láta bölmóðinn í dofrahöllum villa okkur sýn. Núverandi ríkisstjórnarflokkar geta gengið hnarreistir til kosninga næsta vor. Valkostirnir verða skýrir: (Forseti hringir.) Viljum við búa áfram að uppbyggingu eins og núverandi ríkisstjórn hefur lagt grunninn að eða ætlum við að treysta á þau öfl undir forustu Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) sem fór hér með völdin árum og áratugum saman fyrir hrun og leiddi ógæfuna yfir þjóðina?