141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þuríði Backman og óska okkur til hamingju með alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn sem er í dag. Megináherslan hvað þennan dag varðar er baráttan við þunglyndi. Áætlað er að 350 milljónir manna í heiminum séu að fást við þann erfiða sjúkdóm.

En ég kem hins vegar hingað upp til að ræða nokkuð sem ég held að valdi mjög mörgum erfiðleikum og vanlíðan þó að það sé ekki skilgreint sem geðsjúkdómur. Það er verðtryggingin og áhrifin á skuldir heimilanna.

Við framsóknarmenn mæltum fyrir máli okkar varðandi þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta í gær. Þar ræddi ég sérstaklega þá umfjöllun sem verið hefur að undanförnu um að bankarnir séu að hagnast óeðlilega á hárri verðbólgu. Það er vegna þess að ójafnvægi er á milli verðtryggðra eigna og skulda hjá bönkunum sem gerir það að verkum að gífurlega mikill hagnaður er að myndast hjá bönkunum.

Einnig er bent á í Hagsjá frá hagfræðideild Landsbankans að það eru ekki bara bankarnir sem hagnast á þessu misvægi, það er líka ríkissjóður. Þetta endurspeglast aftur og aftur. Eins og fyrirkomulagið er varðandi verðtrygginguna á Íslandi þá er það þannig að enginn er í rauninni að takast á við baráttuna við verðbólguna með heimilunum nema Seðlabankinn. En Seðlabankinn hefur ekki þau tæki og þau gögn til að geta virkilega tekið á. Því er svo mikilvægt að við förum öll að róa í sömu átt hvað þetta varðar.

Í frumvarpi okkar leggjum við til að Seðlabanka Íslands verði skylt að setja fjármálafyrirtækjum reglur varðandi verðtryggingarjöfnuð, þannig að það verði jafnvægi þarna (Forseti hringir.) á milli og það sé ekki þannig að fjármálafyrirtækin geti verið að græða á verðbólgunni og jafnvel hvetja (Forseti hringir.) til hennar, hagnist á því að hér sé verðbólga sem skaðar síðan heimili landsins.