141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

tillögur stjórnlagaráðs.

[15:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að ræða um ummæli hv. þm. Marðar Árnasonar um mig þar sem hann talaði niður til mín á alvarlegan hátt. Ég ræddi ítarlega og mjög oft um mál nr. 3 á síðasta löggjafarþingi og hafi hv. þingmaður ekki hlustað á þá umræðu er hann ekki að sinna sínu starfi. En ég held áfram að skora á frú forseta að taka þetta mál á dagskrá til umræðu.

Það er nefnilega svo að samkvæmt 79. gr. er Alþingi Íslendinga stjórnarskrárgjafinn. Alþingi Íslendinga er stjórnarskrárgjafinn og skal setja þjóðinni stjórnarskrá samkvæmt gildandi stjórnarskrá sem við öll höfum svarið eið að og við eigum að fara eftir þeirri stjórnarskrá, frú forseti. Við verðum því að ræða málið efnislega.

Þegar búið verður að greiða atkvæði um tillögurnar eftir tíu daga þá er spurning hvaða staða kemur upp, því að þingmenn skulu samkvæmt bæði nýju tillögunum og gömlu stjórnarskránni, sem við höfum svarið eið að, fylgja sannfæringu sinni en ekki tilmælum eða neinum fyrirmælum frá öðrum, eins og stendur í bæði nýju hugmyndunum og gömlu stjórnarskránni. Þjóðin getur því ekki haft áhrif á stjórnarskrána eins og hún er sett upp, bæði núna og í tillögu stjórnlagaráðs.