141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

tillögur stjórnlagaráðs.

[15:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði mér að sneiða hjá því að svara hv. þm. Merði Árnasyni, enda eru athugasemdir hans moðreykur í þessari umræðu og tengjast ekki þeirri ósk sem við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum borið fram gagnvart forseta sem er einföld, að efnt verði til umræðu samkvæmt 2. mgr. 60. gr. þingskapa um tillögur stjórnlagaráðs í þinginu í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október. Forseti hlýtur að taka þá beiðni okkar, nokkurra þingmanna og að ég hygg þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, til greina og taka efnislega afstöðu til hennar burt séð frá útúrsnúningum hv. þm. Marðar Árnasonar.

Ég ætla þó ekki að sniðganga hv. þm. Mörð Árnason algjörlega í svari mínu, mér finnst rétt að geta þess eins og hv. þm. Pétur Blöndal að hér áttu sér stað efnislegar umræður fyrir nákvæmlega ári síðan um málið þar sem til dæmis sá sem hér stendur hélt 40 mínútna ræðu sem snerist öll um gallana á tillögum stjórnlagaráðs. Má fletta því upp í þingskjölum (Forseti hringir.) og hvet ég hv. þm. Mörð Árnason til að gera það.