141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

tillögur stjórnlagaráðs.

[15:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka beiðni okkar sjálfstæðismanna um að hér verði tekin til umræðu dagspart eða jafnvel heilan dag drög að nýrri stjórnarskrá. Það er erfitt að finna jafnríkt tilefni til að ræða jafnmikilvægt mál og þetta. Það er mikilvægt að hafa hér ítarlega og opna umræðu um málið. Það er ekki rétt að nálgast það þannig að öðrum megin sé þjóðin og hinum megin sé þing. Þetta fer jú saman. Við þingmenn erum hluti af þjóðinni. Það er alveg eðlilegt að við tökum umræðu okkar á milli um málið, það verði hluti af umræðu þjóðarinnar, þó ekki þannig að við þingmenn segjum þjóðinni til eða frá hvað hún eigi að gera, enda höfum við enga stöðu til þess. En það er sjálfsagt mál að skoðanir okkar komi fram á einstökum greinum málsins þannig að rökin heyrist, bæði frá okkur og öllum öðrum sem um málið fjalla. Það mun auka líkurnar á góðri kjörsókn og það mun dýpka (Forseti hringir.) umræðuna. Hví skyldum við ekki gera það?