141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

tillögur stjórnlagaráðs.

[15:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að menn vilji ræða stjórnarskrána en það eru hins vegar heilmörg önnur áhugaverð og mikilvæg mál á dagskrá í dag. Ég vil hvetja forseta og samþingmenn mína til að einbeita sér að þeirri dagskrá sem liggur fyrir. Ég beini því til fólks sem hefur áhuga á því að ræða þetta mál að það eru fjölmargar aðrar leiðir til þess. Við höfum þegar rætt það margoft í þinginu. Þjóðin er núna í augnablikinu að fara í gegnum drögin frá stjórnlagaráðinu, þann bækling sem borinn hefur verið í hús. Hún er að sjálfsögðu að kynna sér ítarlega núgildandi stjórnarskrá og bera hana saman við drögin. Ég treysti þjóðinni fullkomlega til að gera það á þeim dögum sem eru fram að kosningum þann 20. október. Ég hvet fólk og vonast til þess að allir þingmenn muni hvetja fólk til að nýta sér þennan lýðræðislega rétt.

Ég held að tími sé kominn til að við einbeitum okkur að þeirri dagskrá sem liggur fyrir.