141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

190. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008, með síðari breytingum (afnám umsóknarfrests til að sækja um leyfisbréf). Það er öll allsherjar- og menntamálanefnd sem flytur þetta mál.

Kjarninn er sá að við ætlum að leggja undir breytingu á 3. mgr. 23. gr. laganna, að hún orðist svo, með leyfi forseta:

„Þeir sem innrituðust í fullgilt 180 eininga kennaranám, bakkalárnám, til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum á grundvelli laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, nr. 86/1998, og luku náminu fyrir 1. júlí 2012 eiga rétt á útgáfu leyfisbréfs til kennslu í leikskólum, grunnskólum og/eða framhaldsskólum. Sama gildir um þá sem innrituðust í 60 eininga diplómanám til kennslu í grunn- og framhaldsskólum og luku náminu fyrir 1. júlí 2012.“

Kjarninn er sá að okkur bárust ábendingar frá hópi nemenda í námi til B.Ed.-gráðu sem luku námi sínu fyrir 1. júlí 2012, líkt og markmiðið var, en gættu þess ekki að sækja um leyfisbréf samkvæmt 3. mgr. 23. gr. laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla fyrir þann tíma, sóttu sem sagt ekki um áður en sá frestur rann út.

Um er að ræða á annan tug nemenda sem svo er ástatt um og eiga þeir það eina úrræði í stöðunni að bæta við sig tveimur árum í námi til meistaragráðu á sviði menntunarfræða. Því er lagt til í frumvarpinu, eftir viðræður við þennan hóp og eindregnar óskir frá þeim, að felldur verði brott frestur til að sækja um leyfisbréf en þess í stað lagt til grundvallar að þeir sem byrjað hafi fullgilt kennaranám samkvæmt námsskipulagi eldri laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum kennara eigi rétt á útgáfu leyfisbréfs og sé sá réttur ótímabundinn þannig að ekki sé verið að mismuna nemendum eftir því hvort þeir sóttu um þennan frest eða ekki, þetta er bara út frá því. Þetta er bara út frá því hverjir höfðu hafið námið með gamla fyrirkomulaginu ef svo má segja eða fyrra fyrirkomulagi. Með sambærilegum hætti er lagt til að þeim sem innritast hafi í 60 eininga diplómanám til kennslu í grunn- og framhaldsskólum á grundvelli laga og lokið hafa náminu fyrir 1. júlí 2012 veitist ótímabundinn réttur til útgáfu leyfisbréfs.

Við erum að ræða jafnræðismál og mikilvægt sanngirnismál fyrir þann hóp sem lendir í þessari stöðu, er á þessum skilum þegar verið er að breyta svo mjög fyrirkomulagi námsins, m.a. þannig að námið lengist og tekur breytingum, að þeir njóti jafnstöðu við aðra þá sem hófu námið fyrir þann tíma en sóttu um frestinn.

Eftir 1. júlí 2011 kom í ljós að stór hópur nemenda í bakkalárnámi og uppeldis- og kennslufræðinámi hafði ýmist lokið námi fyrir 1. júlí 2011 en lét hjá líða að sækja um leyfisbréf fyrir þann tíma og náði því ekki að ljúka náminu. Fulltrúar þessara nemenda leituðu ásjár menntamálanefndar Alþingis á síðasta löggjafarþingi, sem útbjó frumvarp til breytinga á áðurnefndri málsgrein.

Í nefndaráliti menntamálanefndar við afgreiðslu þess frumvarps sem varð að lögum sagði eftirfarandi:

„Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu var við samþykkt laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla, nr. 87/2008, ákveðið að þeim sem byrjað hefðu kennaranám fyrir gildistöku laganna yrði veittur frestur til 1. júlí 2011 til að fá leyfisbréf til kennslu að loknu bakkalárprófi og tilskildu námi í uppeldis- og kennslufræðum. […] Við meðferð málsins skoðaði nefndin sérstaklega hvort þessi frestur væri nægjanlega langur. Bent var á að umsagnarfrestur um grunnnám á háskólaárinu 2011–2012 var til 5. júní 2011 og þar af leiðandi gætu þeir nemendur sem frumvarpið lýtur að ekki nýtt sér þennan frest.“

Áfram segir:

„Niðurstaðan var sú að eftirfarandi breyting varð á 3. mgr. 23. gr. laga nr. 87/2008 á 139. löggjafarþingi: „Þeim sem innrituðust í 180 eininga bakkalárnám til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum fyrir 1. júlí 2008 og áttu við lok vormissiris 2011 þrjátíu eða færri einingum ólokið til prófs veitist frestur til að sækja um útgáfu leyfisbréfs til kennslu í leik-, grunn- og/eða framhaldsskóla til 1. júlí 2012.“

Eins og ég rakti hér áðan var ákveðinn hópur sem brann inni með þetta, hafði ekki sótt um frestinn en uppfyllti svo sannarlega öll skilyrðin og markmiðin sem þáverandi menntamálanefnd hafði lagt upp með. Ég tel því mjög mikilvægt að við bregðumst við þessu og jöfnum þannig stöðu þeirra við aðra nemendur og blöndum þessu að öðru leyti ekki saman við umræðu sem er uppi um kennaramenntun, hvort það hafi verið heillaskref eða ekki að lengja námið. Ég held að það hafi verið í sjálfu sér.

Verið er að ræða hvort skoða eigi að nám leikskólakennara verði áfangaskipt þannig að þeir geti hafið störf með tiltekin réttindi eftir þrjú ár, en ljúki áfram fimm ára námi til fullnustu. Þetta er til skoðunar eins og ég nefndi í þingræðu í gær, sveitarfélög og fleiri hafa verið með ákall um það. Það verður að sjálfsögðu aldrei gert nema í nánu samráði við greinina sjálfa sem vill ekki bakka og stytta námið en er tilbúin til að skoða áfangaskiptingu. Ég held að það eigi bara að ræða þetta í rólegheitum og af yfirvegun í vetur. Við getum gert það í framhaldi af þessu en annars ætlaði ég ekki að flétta því saman við þetta mál.

Ég þakka nefndarmönnum úr öllum þingflokkum sem sæti eiga á Alþingi fyrir að bregðast skjótt við og taka þátt í því að flytja þetta mál. Nefndin flytur þetta öll þannig að þetta ætti að geta gengið greitt í gegnum þingið þó að við höfum ákveðið að taka þetta inn í nefndina og fá umsagnir og fjalla um það til að gæta ýtrustu nákvæmni í meðferð málsins. Ég efast ekki um að þetta geti gengið hratt fram hér.