141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

190. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendinguna. Hann er nú með þingreyndari mönnum hér á Alþingi og hefur í gegnum marga lagagjörðina gengið. Þess vegna mælir hann af reynslu þegar hann kemur með þessa ábendingu. Við munum að sjálfsögðu skoða það.

Hvort þetta var fyrirsjáanlegt? Í sjálfu sér kannski ekki en af því að þetta var tiltekinn hópur var skýrt að sækja þyrfti um frestinn, en svo kom í ljós að ekki höfðu allir áttað sig á því. Það er alla vega miklu betra að bregðast við með því að breyta lögunum en láta það ógert og láta þá lítinn hóp gjalda fyrir svona takmörkun eins og þann tímasetta frest. Ég held að það sé alltaf til bóta. Þó það flæki kannski hlutina er það hlutverk okkar að bregðast við og breyta lögum ef svona hnökrar eru uppi. Þetta er ekki stórbrotið í stóra samhenginu, en snertir grundvallarhagsmuni þessa hóps.

Ég var ekki í neinum vafa um það, þegar málið rak á mínar fjörur, að við ættum að fara þessa leið og breyta þessu fyrirkomulagi með frestinn. Það er svo augljóst við hvaða hóp þetta á, þá sem höfðu hafið nám samkvæmt fyrra fyrirkomulagi kennaramenntunar, að þeir gætu lokið á réttu tempói og innan þess ramma sem þar er settur upp, af því breytingin var umtalsverð eins og blasir við.