141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

190. mál
[16:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil fyrst lýsa yfir stuðningi mínum við það frumvarp sem hér er lagt fram af hv. allsherjar- og menntamálanefnd og tek undir að mikilvægt er að löggjafinn bregðist við þegar koma fram réttmætar ábendingar hvað varðar þá löggjöf sem sett var fyrr á þessu kjörtímabili, þannig að ég styð þetta frumvarp.

Mér finnst hins vegar ástæða til að blanda mér aðeins í þessa umræðu um kennaramenntunina. Mín skoðun er sú að það hafi verið rétt skref að lengja námið í fimm ár. Ég rökstyð þá skoðun út frá þeim faglegu rökum sem voru færð fram á þeim tíma þegar sú umræða fór fram í þinginu, en líka út frá þeirri umræðu sem hefur farið fram síðan á hinum alþjóðlega vettvangi þar sem verið er að ræða um menntamál. Fólk hefur horft til þróunar á kennaramenntun hér á landi og fundist það mjög merkilegt skref að setja niður jafnlanga menntun fyrir ólík skólastig. Ég held að þetta sé nokkuð sem við eigum að halda áfram með. Mér finnst mikilvægt að það komi fram nú þegar þessi umræða er uppi.

Hins vegar vil ég vekja athygli hv. þingmanna á skýrslu sem unnin var fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið nýlega og er á heimasíðu ráðuneytisins, um aðgerðir til eflingar leikskólastiginu. Saman komu Samband íslenskra sveitarfélaga, Félag leikskólakennara og þær háskólastofnanir sem standa að kennaramenntun og lögðu til ákveðnar tillögur í þessari skýrslu um þá áfangaskiptingu sem hér var nefnd af hv. formanni allsherjar- og menntamálanefndar og hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þar sem horft er til þess að hægt sé að þrepaskipta náminu rétt eins og við gerum almennt þegar við lítum til háskólanáms sem við skipuleggjum samkvæmt Bologna-ferlinu í þrjú þrep. Það er gert í ákveðnum áföngum sem skilar sér svo inn í það hvernig störfin eru metin. Ég held að það sé ekki rétt leið að hvika frá fimm ára leikskólakennaranámi. Ég held hins vegar að það sé áhugavert að skoða þessa áfangaskiptingu fyrir námið. Það er það sem háskólarnir vilja gera. Þeir eru líka að skipuleggja námið út frá þeirri hugmyndafræði að skapa þá samfellu milli skólastiga sem stefnt var að á sínum tíma, til að mynda með því að mennta kennara sem eru ekki eingöngu að mennta sig til að kenna í leikskólum heldur líka á lengri stigum grunnskóla, kennara sem kenna á miðstigi, kennara sem kenna á gamla gagnfræðastiginu og í framhaldsskólum. Þetta flæði má sjá í uppbyggingu námsins. Þar hefur til að mynda Háskólinn á Akureyri verið með mjög áhugaverðar hugmyndir. Ég fagna því ef hv. allsherjar- og menntamálanefnd ætlar að taka þessi mál til skoðunar.

Ráðuneytið hefur átt í mjög virku samráði við menntavísindastofnanirnar, þ.e. HÍ, HA og Listaháskólann sem hefur verið með kennaranám fyrir þá sem ætla sér að verða listmenntakennarar, þannig að þarna er mikil gerjun í gangi. Ég fagna því ef hv. þingmenn vilja taka þá umræðu upp í þessum sal eða í nefndinni því að ég tel að við stefnum í mjög spennandi átt með kennaranámið. Það vildi ég fyrst og fremst nefna.

Það er hins vegar áhyggjuefni hve fáir sækja núna um leikskólakennaranámið. Ég held að þar dugi ekki að horfa bara á lengd námsins. Þar þarf að skoða kjörin eins og hér var nefnt. Það þarf líka að skoða hvaða leiðir aðrar þjóðir hafa farið til að fjölga nemendum í kennaranámi. Það er ekkert launungarmál og kemur fram í umræddri skýrslu að hugsanlega þarf hreinlega að fara í átak til að kynna þetta nám til að laða fleiri nemendur að. Það hefur til dæmis verið gert í Noregi. Það hefur verið gert í tengslum við kennaramenntun almennt í Bretlandi. Bæði þau átök skiluðu miklum árangri þannig að ég held að þarna þurfi að skoða ýmsar fleiri leiðir.