141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins um almannaþjónustuhlutverkið því að það er aðeins flóknara en klámið og tengist því ekki. Þegar hv. þingmaður spyr hvað Ríkisútvarpið eigi ekki að gera, þá skulum við horfa á það sem hér er sagt. Hér er verið að leggja miklar kvaðir á almannaþjónustufjölmiðil okkar sem við getum ekki lagt á aðra fjölmiðla. Hér er nefnt varðveisluhlutverk og að þjóna landinu öllu til að mynda. (Gripið fram í.) Það er talað um hið lýðræðislega fréttahlutverk, að flytja lýðræðislegar fréttir þannig að fólk geti mótað sér eigin skoðanir. Þetta getum við í raun kallað kvaðirnar sem við leggjum á almannaþjónustumiðilinn. Það má nefna öryggisþjónustuna. Það er margbreytileiki lífsskilyrða í landinu því fréttaþjónusta til landsins alls snýst ekki bara um fréttaþjónustu til landsins heldur af landinu öllu fyrir alla landsmenn, svo dæmi sé tekið. Það er menningarhlutverkið sem snýr líka að því hvernig ESA skilgreinir almannaþjónustuhlutverkið; þar er átt við bæði menningararfleifð þessarar þjóðar en líka að fylgjast með samtímamenningu og að þetta efni hafi skírskotun til ýmissa ólíkra menningarheima.

Þannig að ég segi við hv. þingmann þegar hún spyr hvað Ríkisútvarpið megi ekki gera, að hér eru lagðar mjög ríkar kvaðir á Ríkisútvarpið. Þess vegna höfum við almannaþjónustumiðla. Það er af því við leggjum á þá tilteknar kvaðir sem við leggjum ekki á alla aðra fjölmiðla.

Hv. þingmaður spurði líka út í stjórnarfyrirkomulagið. Þar er horft til þess að ná þeim markmiðum að það veljist sem best saman ólík þekking og ólík hæfni í stjórn Ríkisútvarpsins. Það er mjög mikilvægt. Þetta er vissulega nýbreytni og breyting en ég tel að með þessum hætti náum við því markmiði.

Hvað varðar aðkomu starfsmanna í stjórn ætla ég ekki (Forseti hringir.) að svara fyrir stefnu allra ráðherra í þeim málum, en ég tel að í stofnun sem á að tryggja lýðræðislega stjórnar- og starfshætti (Forseti hringir.) sé ekkert að því að starfsmenn eigi þar fulltrúa, þótt ég hafi fallist á sjónarmið meiri hluta nefndarinnar um að hann hafi málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.