141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:37]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er gaman að fylgjast með umræðunni um Ríkisútvarpið, sérstaklega þessum síðustu orðaskiptum sem voru auðvitað mjög sérhæfð og um alveg afmarkaðan þátt en mjög mikilvægan, um tekjustofnana. En mig langaði að koma að nokkrum sjónarmiðum. Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan að þetta frumvarp er endurflutt en þó með breytingum. Þær breytingar lúta að ábendingum frá allsherjar- og menntamálanefnd frá síðasta þingi og ég fagna því að tekið hefur verið tillit til þeirra.

Ég vil segja að í heildina er ég nokkuð ánægð með þetta frumvarp. Ég held að hér sé ótvírætt verið að stíga skref í rétta átt. Það getur vel verið að nefndin geri einhverjar frekari breytingar, ég ætla ekki að útiloka það, en ég er að minnsta kosti frekar jákvæð gagnvart frumvarpinu. Ég veit að hæstv. ráðherra leggur áherslu á að það klárist núna á þessu þingi. Ég mun ekki láta mitt eftir liggja í að reyna að liðka fyrir að af því verði vegna þess að ég tel að þessi lög verði til bóta fyrir rekstur Ríkisútvarpsins og árangurinn sem mun nást í framtíðinni.

Það er ágætt að minnast á að það hefur reyndar náðst gríðarlega góður árangur í rekstri Ríkisútvarpsins. Það hljómaði kannski þannig í umræðunni áðan að þetta væri bara allt í voða og svakalegir peningar sem rynnu þangað en það er nú ekki þannig. Þar hefur þurft að spara mjög háar upphæðir og segja upp fólki sem er erfitt en ég held að ástæða sé til að undirstrika að góður árangur hefur náðst í rekstrinum. Það má lesa í ársskýrslum Ríkisútvarpsins og hefur verið kynnt á aðalfundum Ríkisútvarpsins. Sumir gera það að leik sínum að bíta alltaf í hælana á Ríkisútvarpinu og Páli Magnússyni, útvarpsstjóra, en ég leyfi mér frekar að hæla bæði honum og starfsmönnum almennt fyrir góðan árangur í rekstri. Því að þrátt fyrir þennan mikla sparnað hefur Ríkisútvarpið ekki laskast, ekki svo verulega sé eftir takandi að minnsta kosti.

Í þessu sambandi er ágætt að minnast á skoðanakannanir sem gerðar hafa verið á trausti til stofnana. Það eru nokkrar stofnanir sem hafa risið hæst hvað varðar traust í samfélaginu. Þar er hægt að nefna lögregluna og Landhelgisgæsluna, Háskóla Íslands, heilbrigðiskerfið og svo fréttastofu Ríkisútvarpsins. Það er ekkert mjög langt síðan að gerð var könnun á trausti til fjölmiðla og þar kom fréttastofa Ríkisútvarpsins áberandi sterkust út með um 80% traust á meðan næsti fjölmiðill þar á eftir var með 50% og aðrir þar fyrir neðan.

Landsmenn treysta því fréttastofu Ríkisútvarpsins mjög vel og það er auðvitað ánægjulegt af því að Ríkisútvarpið hefur svo gríðarlega miklu hlutverki að gegna, er svo mikilvægt. Það væri mikið áfall ef traustið til þeirrar stofnunar og til dæmis til fréttastofunnar væri á svipuðum slóðum og traust til þingsins, það væri mikið áhyggjuefni. Enda er sannarlega mikið áhyggjuefni hvað þingið mælist lágt í trausti.

En mig langar líka til að rifja upp, áður en ég fer yfir nokkur efnisatriði þessa máls, hvað framsóknarmenn hafa sagt um Ríkisútvarpið. Við erum með alveg sérstaka stefnu um það eða höfum ályktað um það eins og önnur stór mál á flokksþingi okkar. Á síðasta flokksþingi ályktuðum við á þessa leið, virðulegur forseti:

„Fjölmiðlar eru mikilvæg upplýsingaveita almennings í lýðræðislegu samfélagi. Auka þarf gagnsæi um útbreidda fjölmiðla þannig að eignarhald sé skýrt og til að koma í veg fyrir samþjöppun. Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi og á því hvílir rík skylda að þjóna öllu landinu. Útvarpsgjaldið verður að renna óskipt til RÚV. Stefnt skal að því að auka hlutdeild norræns dagskrárefnis í ríkissjónvarpinu þegar samningur við RÚV verður næst endurnýjaður en það er nú 7,5%.“

Þingheimur getur hér heyrt og aðrir sem á þetta hlusta að framsóknarmenn telja að útvarpsgjaldið eigi að renna óskipt til RÚV en umræðan um einmitt þetta hefur verið mjög áberandi í þingsal.

Ég vil koma aðeins inn á þá umræðu. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og þeir sem lesa umsögn fjárlagaráðuneytisins geta séð það að ráðuneytið gerir verulegar athugasemdir við að líta eigi á innkomuna sem markaðan tekjustofn sem eigi að renna til RÚV. Ráðuneytið tekur þar með meira eða minna undir málflutning hv. þm. Ásbjarnar Óttarssonar áðan. Ráðuneytið bendir á að sá aðskilnaður sem við höfum á tilfinningunni að við séum að framkvæma með þessu frumvarpi sé í reynd minni en maður heldur. Þingið hefur áfram tak á fjárveitingunum. Það getur sett inn til dæmis „þrátt fyrir ákvæði“ svokölluð. Þrátt fyrir að innkoman sé þessi ætli þingið ekki að skila henni allri inn eða að það ætli til dæmis að ákveða hvenær gjaldið renni yfir til útvarpsins. Þannig skil ég að minnsta kosti umsögn ráðuneytisins. Það má beita alls kyns trixum og gera ýmsar breytingar til að láta gjaldið ekki renna á þann stað sem við teljum að það renni til. Þannig að ef til vill er þetta ekki svo mikil breyting.

Fjármálaráðuneytið nefnir Hæstarétt og forseta Íslands og veltir upp, eins og hér hefur verið gert, af hverju það eigi ekki að gilda sama hugmyndafræði um sjálfstæði þeirra og af hverju þessar stofnanir eigi að vera háðar fjárveitingavaldinu en ekki Ríkisútvarpið. Af því tilefni vil ég taka fram, ég veit ekki hvort það eru mjög góð rök í þessu máli, en það kom fram í nefndinni að dæmi eru um að það hafi verið samband á milli forustu RÚV og aðila í þinginu og þar sem kom fram undir rós að ef menn á fréttastofu RÚV hefðu sig ekki sæmilega hæga væri þeim bent á að bráðlega yrði farið að fjalla um upphæðir sem ættu að renna til RÚV í fjárlögum. Hvernig ber að skilja svona orðræðu?

Þarna var verið að koma því á framfæri að ekki ætti að trufla viðkomandi þingmann væntanlega, með einhverjum fréttaflutningi af því það gæti haft slæmar afleiðingar á fjárveitingar til RÚV. Það getur verið að þetta séu ákveðin rök í þessu máli varðandi Hæstarétt og forsetaembættið, það eru miklu minni snertifletir á milli þingmanna og þessara stofnana en við Ríkisútvarpið. Það eru talsvert margir snertifletir við Ríkisútvarpið, sérstaklega við fréttamennina auðvitað og því kannski ríkari ástæða til að hafa þetta eins aðskilið og unnt er, fjárveitingarnar frá þingi og hvernig þær renna til Ríkisútvarpsins.

Eins og kom fram áðan hafa framsóknarmenn líka fjallað um norrænt sjónvarpsefni og ég ætla að skjóta því að að hæstv. menntamálaráðherra hefur einmitt svarað fyrirspurn um það atriði. Það eru ákvæði um norrænt sjónvarpsefni í þjónustusamningnum við RÚV og sú sem hér stendur hefur skorað á hæstv. ráðherra að reyna að hækka hlutfall þess. Einn fjórði alls efnis sem sýnt er á RÚV er frá Bandaríkjunum en einungis 7,5% frá Norðurlöndunum, að Íslandi undanskildu. Það þyrfti að fjórfalda kaup frá öllum Norðurlöndunum ef það ætti að nást upp í allt bandaríska efnið sem er sýnt.

Þetta er svolítið sérstakt af því að á sama tíma sýna neyslukannanir á sjónvarpsefni að landsmenn horfa almennt meira á norrænu þættina en þá bandarísku. Bestu norrænu þættirnir fá í kringum 20% áhorf sem er talsvert meira en áhorfið á bandarísku þættina. Þannig að fólk vill sjá þetta efni og mér skilst að það sé heldur ekki dýrara. Ég ætla því að nýta ferðina og skora á hæstv. ráðherra að tryggja meira af norrænu sjónvarpsefni af því að það hefur miklu menningarlegu hlutverki að gegna fyrir okkur, að mínu mati.

Það er hægt að drepa á ýmislegt í þessu frumvarpi. Ég ætla ekki að fara djúpt ofan í það en vil bara undirstrika það sem kom fram í nefndaráliti meiri hlutans frá síðasta þingi. Það eru kannski ekki allir sem átta sig á því en þar er dregið fram að frumvarpið er að hluta til svar við kröfum sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert til okkar varðandi ríkisaðstoð.

Það er full heimild að veita ríkisaðstoð til almannamiðils. Það kemur fram í svokallaðri Amsterdam-bókun um stöðu ríkisrekinnar útvarpsþjónustu, en hún er einróma yfirlýsing aðildarríkjanna um að standa vörð um fjárhagslegan grundvöll útvarpsþjónustu sem kostuð er af almannafé en jafnframt skuli tekið tillit til sérstakra hagsmuna sjálfstætt starfandi fyrirtækja. Í bókuninni er heimiluð undanþága frá samkeppnisreglum ESB um bann við ríkisaðstoð þannig að aðildarríki geti fjármagnað fjölmiðla í almannaþágu með álagningu sérstakra gjalda eða með skattfé. Það er því alveg ljóst að þetta má. Það þurfa samt að gilda ákveðnar reglur um hvernig þetta er gert og við fengum athugasemdir. Nú er því verið að reyna að skilja að almannaþjónustuhlutann og samkeppnishlutann og setja samkeppnishlutann hjá RÚV í dótturfélög og hann á allur að lúta samkeppnisreglum.

Varðandi önnur mál sem við framsóknarmenn höfum skoðað líka væri hægt að setja á langt mál um það að nú er verið að takmarka auglýsingar í RÚV frá því sem nú er til að veita samkeppnisaðilum meira svigrúm á markaðnum. RÚV hefur verið mjög vinsælt til auglýsinga þannig að þetta eru allt skref í átt að því að jafna samkeppnisstöðuna frá því sem nú er.

Virðulegur forseti. Ég vil líka nefna, af því að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson talaði í ræðu sinni um forgangsröðun, að mér finnst svolítið óréttlátt að stilla upp tækjakaupum til heilbrigðisþjónustu á móti rekstri Ríkisútvarpsins. Það er hins vegar ljóst að hægt er að gera mjög margt til að forgangsraða innan heilbrigðisgeirans ef maður lítur bara þröngt á hann. Ég ætla að leyfa mér að benda hv. þingmanni og Sjálfstæðisflokknum í heild á að mjög brýnt væri að gera eina kerfisbreytingu í heilbrigðisþjónustunni og mér finnst ekki hafa náðst nógu mikill stuðningur um þá breytingu hjá Sjálfstæðisflokknum miðað við stuðning annarra flokka við það mál, og það er að koma á valfrjálsu tilvísunarkerfi. Það er talsverð sóun á almannafé í heilbrigðiskerfinu þegar fólk getur farið eftir eigin sjúkdómsgreiningu, sem það er ekki fært um að gera, beint til sérfræðings.

Þannig er þetta ekki annars staðar á Norðurlöndunum. Fyrst sækir fólk á lægra stig þjónustunnar, fyrsta stigið er heilsugæslan eða heilsugæslulæknar og síðan fer það til sérfræðinga ef á þarf að halda en fer ekki beint til þeirra og ríkið er látið borga meira eða minna reikninginn eins og hér er gert. Það væri gott ef við næðum að forgangsraða þar betur með aðstoð Sjálfstæðisflokksins. Það tekur mikinn tíma að koma þessu kerfi í gagnið en það verður að byrja á því sem fyrst.

En þegar á heildina er litið vil ég bara segja að ég er jákvæð gagnvart þessu frumvarpi. Ég tel að nefndin hafi skoðað það nokkuð ítarlega á síðasta þingi og okkur sé ekki mikið að vanbúnaði að afgreiða það. Við gætum alveg klárað það að mínu mati á nokkuð skömmum tíma og ég lýsi mig jákvæða gagnvart því almennt séð. Ég tel að það sé jákvætt skref.