141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hægt að taka undir eitt og annað sem kom fram í máli hv. þm. Skúla Helgasonar. Það er rétt að draga það fram að frumvarpið tók, að mínu mati, jákvæðum framförum í meðförum nefndarinnar. Ég verð þó að benda á að mælt var fyrir frumvarpinu í apríl en það var lagt fram í lok mars. Nefndin sendi það út til umsagnar 2. maí. Umsagnarfresturinn var óvenjuskammur miðað við svona stór heildarlög, hann var vika. Það átti greinilega að keyra þetta mál í gegn. En eins og við þekkjum var málið afgreitt af hálfu nefndarinnar og ég tel að við þurfum að fara betur yfir ákveðna þætti sem við fengum ekki tækifæri til að gera í vor. Það er önnur saga. Ég ætla ekki að fara að hóta miklum málalengingum, ég vil bara fá tækifæri til að fjalla um málið og ég held að það sé réttmæt krafa.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um dreifileiðir Ríkisútvarpsins. Menn hafa verið að benda á að Ríkisútvarpið er án nokkurs kostnaðar að senda út efni á dreifileiðum sem einkaaðilar á markaði sinna. Ríkisútvarpið fær það ókeypis í raun. Það eru einkaaðilar á markaði sem sjá um að sinna þessum flutningi á dreifileiðum fyrir hönd Ríkisútvarpsins. Ég spyr hvort hv. þingmaður telji það réttmætt og hvort þetta geti hugsanlega raskað samkeppnisstöðu Ríkisútvarpsins.

Ég vil gjarnan fá viðhorf hans til breytinga sem tengjast fjölmiðlanefnd, hvort hann styðji það, sem mér sýnist enn inni, að gert sé ráð fyrir viðbótarstarfsmanni við fjölmiðlanefnd vegna eftirlits út af þessu nýja frumvarpi. Það kom alveg skýrt fram í máli forstöðumanns fjölmiðlanefndar, Elfu Ýr Gylfadóttur, að hún teldi að frumvarpið þýði aukin verkefni fyrir fjölmiðlanefnd. Ég spyr hvort hv. þingmaður telji það rétt og hvort hann styðji það.

Ég mun geyma þriðju spurninguna til hv. þingmanns þar til ég kem í seinna andsvar.