141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:03]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þessar fyrirspurnir. Það er rétt að við ræddum talsvert um dreifileiðirnar og dreifikerfið og þá uppbyggingu sem fram undan er á stafrænni þjónustu Ríkisútvarpsins í nefndinni í vor. Ég get staðfest að ég er þeirrar skoðunar að við eigum fyrst og fremst að horfa til þess hvort ekki sé hægt að ná samkomulagi milli Ríkisútvarpsins og einkaaðila á markaðnum um samnýtingu á dreifikerfi fyrir landið allt í stað þess að dreifikerfi hjá Ríkisútvarpinu annars vegar og hins vegar þeim einkaaðilum sem eru á markaðnum verði byggt upp hlið við hlið. Ég held að það eigi að vera leiðarljósið í þessari vinnu og auðvitað er eðlilegt að skoða hvort ekki sé nauðsynlegt að gera breytingar á því að Ríkisútvarpið geti nýtt sér það dreifikerfi sem einkaaðilar eru með án þess að greiða fyrir það. Mér finnst það vera ákveðið sanngirnismál sem þurfi að líta á opnum huga.

Varðandi fjölmiðlanefndina tel ég mjög mikilvægt að slíkur aðili sé til, og fjölmiðlanefndin er augljós valkostur í þeim efnum, sem hafi eftirlit með því að Ríkisútvarpið sé raunverulega að sinna almannaþjónustuhlutverkinu með sóma og í samræmi við löggjöfina. Ég styð það upplegg sem kemur fram í þessu frumvarpi hvað þetta varðar og tel reyndar að það sé ákveðinn ljóður á okkar ráði, og hafi kannski verið allt of lengi, að við erum dugleg við að setja nýja starfsemi á fót en ekki endilega sérstaklega dugleg við að fylgja því eftir að árangurinn sé í samræmi við fyrirheitin í upphafi. Ég gæti nefnt óþægilega mörg dæmi um það.