141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Ríkisútvarpið enn einu sinni og það er ekkert að því, svo það sé strax sagt, að menn séu með lög, eins og um Ríkisútvarpið, stöðugt til endurskoðunar ef menn hafa það að markmiði að reyna að skýra og skerpa hlutverk þess, átta sig á hvert markmiðið er að hafa það sem stofnun í samfélaginu o.s.frv.

Ég vil byrja á að fagna því sem var rifist um mest á sínum tíma, þ.e. formbreytingin yfir í opinbert hlutafélag, að vinstri flokkarnir sem sett hafa á langar ræður nótt eftir nótt, ár eftir ár, leggja ekki til að frá því fyrirkomulagi verði horfið og það var nú reyndar langstærsta umræðan, frú forseti, á sínum tíma. Ég held að það sé rétt sem fram hefur komið í máli ekki síst stjórnarliða að Ríkisútvarpið er betur rekið en áður hefur verið. Það er jákvætt að Ríkisútvarpið hefur skilað á umliðnum árum jákvæðum rekstrarafgangi og því má auðvitað fagna sem vel er gert og klappa þeim á bakið sem forustu og ábyrgð hefur í því máli, það er Páll Magnússon. Hins vegar er ekki þar með sagt að við séum gagnrýnislaus á þá starfsemi sem á sér stað innan Ríkisútvarpsins. Ég hef iðulega í gegnum tíðina verið mjög gagnrýnin á Ríkisútvarpið. Mér finnst hlutverk þess orðið mjög umfangsmikið. Það er líka rétt að draga það fram að við innan Sjálfstæðisflokksins — oft er talað um að það sé bara eitt mál innan flokksins sem er deiluefni, þ.e. Evrópusambandið og umsóknarferlið varðandi það, það er ekki rétt. Hægt er að tala um landbúnaðarmál, tollamál og síðan er hægt að tala um Ríkisútvarpið sem hefur oft og tíðum verið mjög skemmtilegt umræðuefni á hinum ýmsu fundum innan flokksins sem utan. Það áhugaverða er að fólk hefur ákveðnar skoðanir og hefur haft ákveðna skoðun á Ríkisútvarpinu í gegnum tíðina, það er fínt og það er vel.

Varðandi þetta frumvarp vil ég draga fram að ég tel að það hafi verið heillaspor að breyta því í opinbert hlutafélag, eins og Norðmenn og Svíar gerðu á sínum tíma, ekki síst með tilliti til þess að lögin til að mynda um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafa ekki verið endurskoðuð, ekki að neinu marki og ljóst er að núverandi ríkisstjórn mun heldur ekki fara í endurskoðun á þeim lögum. Það var líka lykillinn að því og ein ástæðan fyrir því að menn fóru í formbreytingar á sínum tíma.

Fyrst ráðherra er hér í salnum hefði ég kosið og það hefði verið áhugavert varðandi formið á frumvarpinu sem slíku, því að ekki átta sig allir á mikilvægi samningsins sem gerður er sem þjónustusamningur við Ríkisútvarpið, að hann hefði verið sem fylgiskjal með frumvarpinu. Í þjónustusamningnum, sem ég veit að núverandi ráðherra hefur líka beitt sér fyrir að taki ákveðnum breytingum, markast mjög ákveðið hlutverk Ríkisútvarpsins. Ég hef gagnrýnt það í þessu frumvarpi að mér finnst hlutverk Ríkisútvarpsins vera gríðarlega víðtækt. Vissulega erum við að setja ákveðnar skuldbindingar og ákveðna ábyrgð á herðar Ríkisútvarpinu en eftir stendur að Ríkisútvarpið getur spilað frítt spil á fjölmiðlamarkaði að mínu mati eftir þetta frumvarp og getur tekið sér nánast hvað sem er fyrir hendur.

Hlutverk þjónustusamningsins var einmitt — það má kannski segja að það sé ákveðin reglugerð, þ.e. þjónustusamningurinn, að takmarka hlutverk Ríkisútvarpsins og reyna að forgangsraða. Menn hafa til dæmis talað um norrænt efni. Tekin var fram sérstök prósentutala um norrænt efni og hefði verið hægt að hækka hana. Ákveðnir skýrir rammar voru settir fram um barnaefnið, auglýsingar í kringum barnaefni o.s.frv. Mér hefur alltaf þótt þjónustusamningurinn vera merkilegt tæki og merkileg tilraun til að skerpa enn frekar á hlutverki Ríkisútvarpsins og það er tæki sem er kannski sveigjanlegra en að leggja fram frumvörp í sífellu um Ríkisútvarpið, bæði nú og á árum áður.

Þetta frumvarp er ákveðið svar við ESA, já, en ég held að miklu meira sé sett með frumvarpinu en tilefni er til. Má kannski segja að ferðin sé notuð í því tilefni og það nokkuð vel og ítarlega. Til dæmis er ekki krafa ESA um algera uppstokkun á stjórn Ríkisútvarpsins. Hér er sem betur fer farin mildari leið varðandi breytingar á stjórn Ríkisútvarpsins. Ég þakka ráðherra fyrir það að hafa tekið tillit til meiri hluta allsherjarnefndar og til þeirrar tillögu sem þar er um aðild starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins, sem eiga nú aðild að stjórninni. Fulltrúi þeirra hefur málfrelsi og tillögurétt samkvæmt þeirri tillögu og þessu frumvarpi en ekki atkvæðisrétt í stjórn Ríkisútvarpsins. Fyrst verið er að hafa starfsmannasamtökin þarna inni þá er það þó betri leið en farin var með upphaflega frumvarpinu.

Ég velti enn fyrir mér hlutverki valnefndarinnar. Í frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Við tilnefningu á fulltrúum í stjórn skal valnefnd hafa hagsmuni Ríkisútvarpsins að leiðarljósi og að meðal stjórnarmanna sé m.a. þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningarmálum, nýjum miðlum á hverjum tíma, rekstri og stjórnun fyrirtækja.“

Er það rétt skilið hjá mér með tilliti til þess sem stendur í 10. gr. frumvarpsins að við séum að víkka verulega út starfssvið stjórnarinnar, að við séum að fara úr því að hafa hana sem hreina og klára rekstrarstjórn, eins og hún hefur verið á umliðnum árum, í það að hún muni fara að skipta sér meira af dagskrá Ríkisútvarpsins en gert var?

Ein af ástæðunum líka fyrir breytingunum á sínum tíma var að klippa á það að stjórn og þá pólitískt vald væri með puttana í dagskrá og dagskrárvaldi Ríkisútvarpsins. Er verið að breyta því? Mér er spurn og væri ágætt að fá svar við því frá ráðherra á eftir.

Ég velti því líka fyrir mér með tilliti til þess sem kemur fram í 3. gr. að lögð er mikil áhersla á fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, talað er um þjónustu í almannaþágu og annað. Og með tilliti til almannaöryggis og hugsanlegrar hættu hefði þá ekki verið lag að skoða í valnefnd reynslu manna af almannavörnum, af öryggismálum? Hefði ekki verið rétt að hafa einn slíkan fulltrúa í slíkri valnefnd en ekki eingöngu frá Bandalagi íslenskra listamanna, eins og ávallt er, sem hefur reynslu af nýjum miðlum og fjölmiðlum? Hefði ekki verið rétt — í ljósi hlutverks Ríkisútvarpsins sem stendur ekki bara fyrir menningarhlutverki, það á að gera það, hér er verið að ýta enn frekar undir það sem er fagnaðarefni — að setja inn í valnefndina fólk sem hefur þekkingu á almannavörnum ef við eigum að ýta undir almannavarnahlutverk Ríkisútvarpsins og undirstrika það? Þetta er það sem ég vil velta upp og við munum eflaust fara yfir það í meðförum nefndarinnar.

Það hefur verið talað nokkuð mikið um útvarpsgjaldið. Mig rekur ekki minni til þess að hafa séð eins langa umsögn um frumvarp frá fjárlagaskrifstofunni og þessa. Hún hefur lengst ef eitthvað er frá síðustu framlagningu. Það eru greinilega einhverjir hnökrar á samskiptum og skoðunum milli ráðuneyta. Það er svo sem ekkert nýtt en það er greinilegt að sumarið og haustið hefur ekki verið notað til að reyna að setja niður þá deilu milli menntamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis um það hvernig fyrirkomulagið á að vera á útvarpsgjaldinu og hvert það á að renna, hvað þá að haft hafi verið samband við fjárlaganefnd þingsins í millitíðinni. Ég held að þetta hljóti að vekja menn til ákveðinnar umhugsunar.

Varðandi síðan fyrirkomulagið sem slíkt undirstrikar það kannski að við erum ekki alltaf sammála innan stjórnar og innan stjórnarandstöðu. Ég hlustaði með athygli á það sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hafði fram að færa og hann er ötull liðsmaður okkar í fjárlaganefnd. Hann kom með mjög skýra punkta varðandi það hvert útvarpsgjaldið á að renna, sjónarmið sem mér fannst þess virði að hlusta á. Af hverjum þurfum við að hafa svona afmarkaðan fjárlagalið sem útvarpsgjaldið er og láta það renna eingöngu til Ríkisútvarpsins meðan við erum í þinginu að láta fjárlagaliði sem eru ákveðnir af fjárlaganefnd og síðan þinginu renna beint til stofnana sem við viljum að séu óháðar og sjálfstæðar frá þinginu eins og dómstólarnir, hvort sem væri um að ræða Hæstarétt, héraðsdómara, lögregluna o.s.frv.? Mér fannst hann setja fram mjög sterk sjónarmið hvað það varðar þó að ég hafi í gegnum tíðina verið frekar hlynnt því sem hæstv. menntamálaráðherra hefur sagt, að reyna að hafa tekjustofninn afmarkaðan og hann renni þá beint til Ríkisútvarpsins. Af hverju hef ég frekar verið hlynnt þeirri nálgun en því sem fjárlaganefndarmenn hafa sett fram? Það er meðal annars vegna reynslunnar í öðrum löndum, t.d. í Noregi. Þar er þetta fyrirkomulag með þeim hætti. Við litum til Noregs þegar kom að opinberu hlutafélagi. Ég held að ekki sé óeðlilegt að við lítum til annarra landa líka hvað þetta varðar. Það sama gildir með Finnland. Mér skilst að verið að sé breyta úr því að þetta renni til ríkisins og síðan verði úthlutað, það er verið að hverfa frá því fyrirkomulagi í Finnlandi. Ég held að við eigum að líta til reynslu annarra þjóða hvað þetta varðar. Ég get í sjálfu sér tekið undir það að hægt sé að marka þetta Ríkisútvarpinu en þó með því fororði og þeim fyrirvara að það útvarpsgjald sem um ræðir núna er allt of hátt. Ég hefði viljað undirstrika meginsjónarmiðin varðandi Ríkisútvarpið, ég vil hafa Ríkisútvarp en ég vil hafa hlutverk þess mjög skýrt og afmarkað og það sé ekki jafnumfangsmikið á markaði eins og það er í dag.

Þess vegna hefði ég viljað sjá samhliða þessu hlutverkið skýrara, skarpara og bein tillaga hefði verið um það fyrst verið er að tala um að útvarpsgjaldið eigi að renna beint til Ríkisútvarpsins, það hefði einfaldlega verið hrein og klár tillaga til lækkunar í þessu frumvarpi og þá samhliða í fjárlagafrumvarpinu. Það er hins vegar ekki gert. Ég er því ekki alveg fullkomlega sátt við þá leið sem hæstv. menntamálaráðherra er að fara þó að ég sýni aðferðafræðinni skilning.

Varðandi auglýsingarnar — tíminn líður hratt á gervihnattaöld, sé ég — þá finnst mér tækifærin ekki vera notuð núna. Kannski hafa þau heldur ekki verið notuð í gegnum tíðina, það er rétt að undirstrika það. Skoðun mín hefur verið sú, líka þegar ég var í ríkisstjórn en fékk ekki stuðning við það hjá samstarfsflokki mínum og jafnvel ekki innan þingflokksins heldur, að það hefði átt að takmarka Ríkisútvarpið verulega á auglýsingamarkaði og banna kostun. Ég heyri það hins vegar núna að menn eru meira að ljá máls á því að reyna að banna kostun, ekki bara í gegnum þær undanþágur sem eru í frumvarpinu heldur að menn verði að fara vel yfir sviðið því að eins mikilvægt og það er að hafa Ríkisútvarp, þá er líka mikilvægt að hér þrífist frjálsir fjölmiðlar. Frjálsir fjölmiðlar þrífast ekki á neinu nema auglýsingatekjum og kostun. Þá getum við ekki leyft okkur að fara þá leið sem hæstv. ráðherra er að fara í frumvarpinu. Ég get ekki séð að menn séu að gera það að neinu marki, menn eru að setja Ríkisútvarpið langt undir það þak sem er verið að setja þannig að það ógnar ekki Ríkisútvarpinu. Það þarf ekkert að draga saman seglin að vera með svona stórt og mikið Ríkisútvarp um leið og við ætlumst til þess að hafa fjölbreytta flóru í fjölmiðlum. Það kemur einfaldlega ekki heim og saman ef við höfum metnað til hvors tveggja.

Það er margt athyglisvert í frumvarpinu, það er ekki allt vont, síður en svo, það er alls ekki þannig, en engu að síður eru mörg viðvörunarmerki sem við verðum að hlusta á, viðvörunarmerki sem segja mér að Ríkisútvarpið er enn þá og verður í gegnum þetta frumvarp allt of stórt. Það verður á kostnað frjálsrar fjölmiðlunar og ekki síst þeirra sem eru að hasla sér völl, ekki í gegnum útvarpsbylgjur heldur í gegnum vefinn og vefmiðlana. Þó að verið sé að banna kostun á veraldarvefnum sjáum við alls konar undanþágur sem munu stuðla að því að þeir frjálsu miðlar sem sækja í sig veðrið á netinu munu eiga undir högg að sækja.

Þess vegna þurfum við að fara vel yfir málið í nefndinni nú sem áður, gefa okkur tíma til að fá álit þeirra mörgu aðila sem starfa á markaði og annarra þannig að við getum skilað af okkur góðri afurð sem verður til þess að við höfum gott Ríkisútvarp með skýrt hlutverk en um leið fjölbreytta flóru á fjölmiðlamarkaði.